Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Standa frammi fyrir djúpum skuldavanda

04.11.2020 - 16:20
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Rösklega 200 smærri fyrirtæki og einyrkjar í ferðaþjónustu hafa sent stjórnvöldum ákall um að grípa verði til aðgerða strax til að forða þeim frá að lenda í djúpum skuldavanda. Á haustmánuðum hafi óvissa og úrræðaleysi aukist. Þau vilja meðal annars að einyrkjar og eigendur lítilla ferðaþjónustufyrirtækja eigi rétt á fullum atvinnuleysisbótum.

Það er verulega þungt hljóðið í þessum hópi. Jóna Fanney Svavarsdóttir, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Eldhúsferðir, segir að ástæðan sé einkum sú að smærri fyrirtækjum og einyrkjum finnist að þeir hafi lent utangarðs í úrræðum stjórnvalda. Nú sé reyndar talað um að horfa eigi til þessa hóps. Samt sem áður var ákveðið að stofna baráttuhóp til að koma á framfæri tillögum um aðgerðir. 

„Ástandið er virkilega slæmt,“ segir Jóna Fanney.

Í svörum við spurningalista sem sendur var til ferðaþjónustufyrirtækja kemur fram að nær öllum líst mjög illa á ástandið næstu sex mánuði. Hún bendir á að fjölmörg fyrirtæki hafi verið útilokuð vegna strangra skilyrða frá tilteknum aðgerðum, eins og t.d. stuðningslánum. Hópurinn hefur lagt fram tillögur og kröfur í 17 liðum. Bregðast verði við strax vegna þess að margir standi frammi fyrir djúpum skuldavanda. Lagt er til að tekjufallsstyrkir verði háðir sem minnstum skilyrðum til að sem flestir geti sótt um. Skilyrði fyrir stuðningslánum verði liðkuð. Einnig að fyrirtæki geti nýtt starfsmenn að fullu þó farin sé svokölluð hlutabótaleið. Þau vilja að tryggingargjald verði fellt niður tímabundið og fasteignagjöld verði lækkuð eða afnumin um tíma svo eitthvað sé nefnt. Þau vilja líka að einyrkjar og eigendur lítilla ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa þurft að loka vegna COVID-19 fái fullan rétt á atvinnuleysisbótum.
Jóna Fanney segir að ástandið sé mjög slæmt út um allt land.

„Það sem mér finnst sorglegt er að stjórnvöld hafi ekki verið komin af stað t.d. með tekjufallsstyrki eða styrki sem snúa ekki beint að launaþættinum heldur rekstrinum til að viðhalda fyrirtækjunum. Íslensk stjórnvöld eru svona þremur til fjórum mánuðum seinni en önnur lönd að koma með til dæmis tekjufallsstyrki,“ segir Jóna Fanney. Fyrir þremur til fjórum mánuðum hafi slíkum styrkjum verið komið á í Noregi og öðrum löndum í Evrópu. „Þannig að stjórnvöld á Íslandi eru allt of sein að taka við sér. Við erum að tala um að það er greiðsluvandi núna í flestum fyrirtækjum. Ef það fer ekki að gerast eitthvað núna þá erum við að tala um að fyrirtæki eru að lenda í skuldavanda.“ Hún segir að fyrirtæki séu byrjuð að selja eignir til þess að eiga fyrir sköttum, gjöldum og launum.