Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hátt í 200 yfir sextugu í einangrun með COVID-19

04.11.2020 - 11:40
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? / RÚV
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, minnti eldri borgara á að hreyfa sig og huga að heilsunni á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Næstum 200 manns yfir sextugu eru í einangrun með COVID-19.

Þórunn sagði að þriðja bylgjan hefði lagst þungt á eldri aldurshópa og hvatti fólk til dáða: „Við verðum að berjast, verðum að halda áfram.“ Hún minnti eldri borgara á að gera allt sem hægt væri til að einfalda lífið á erfiðum tímum, til dæmis að skipuleggja matarinnkaup eða panta matvörur á internetinu. „Svo er gott að fara með minnisblað í búðina,“ sagði hún og skoraði á fólk að geyma erindi sem ekki væru brýn til betri tíma. 

Mikilvægt væri að fara út að hreyfa sig daglega og að oft væri líka hægt að hreyfa sig innanhúss. Þá sagði hún gott að horfa fram á við, til þess tíma þegar útbreiðsla veirunnar hefur róast. „Það er stutt í að íþróttahús opni aftur fyrir aldraða. Það er á dagskrá ÍR að opna nýtt íþróttahús svo eldra fólk geti gengið innanhúss þegar hálkan skellur á,“ sagði hún. 

Þá hvatti hún eldri borgara til að hringja í sitt fólk og jafnvel gerast sjálfboðaliðar, til dæmis Símavinir. „Íslendingar eru eftirbátar Dana í því að eldra fólk sé sjálfboðaliðar. Við þurfum að vera virk í því að hjálpa öðrum,“ sagði hún, enda hefðu ótal rannsóknir sýnt fram á að það hefði góð áhrif á líðan.

Hún minnti fólk á kennsluhefti Landssambands eldri borgara um spjaldtölvur en hvatti fólk auk þess til að biðja barnabörn um hjálp. Þá minnti hún á mikilvægi þess að nærast vel og benti fólki á að forðast leiðinlegar fréttir stuttu fyrir svefn.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV