Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Guðni forseti hefst við í kjallaranum á Bessastöðum

Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, dvelur í kjallaranum á Bessastöðum meðan hann er í sóttkví. Hann segist hafa stytt sér stundir við að spila netskrafl og lesa. Hann geti áfram sinnt störfum sínum sem forseti með því að nýta sér tölvutækni. Greint var frá því í gærkvöld að Guðni væri kominn í sóttkví fram á mánudag eftir að starfsmaður á Bessastöðum greindist með kórónuveiruna. 

Rætt var við Guðna í Síðdegisútvarpi Rásar 2 og var samtalið að sjálfsögðu símleiðis. Auk Guðna eru fimm starfsmenn á Bessastöðum í sóttkví. 

Guðni ber sig vel. „Það væsir ekki um mig. Við búum það vel fjölskyldan að hér er kjallari sem ég gisti bara í. Hér eru herbergi, salerni og eldhúskrókur. Þannig að ég þurfti ekki að fara af heimilinu og kvarta alls ekki,“ segir Guðni.

Hann lætur sér ekki leiðast í einverunni. 

„Ég hef verið að lesa og ég hef verið að skrifa og get nú sinnt ýmsum þáttum starfsins með tölvuna að vopni. Svo finnur maður sér eitthvað til dundurs. Ég spila netskrafl á netinu, hef gaman af því,“ segir Guðni. 

Hann vildi ekkert tjá sig um stöðuna í Bandaríkjunum þar sem enn er beðið úrslita úr forsetakosningunum en sagði þó að hann myndi árna sigurvegaranum heilla líkt og venja er.