Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

223 fyrirtæki vilja aðgerðir: „Eru að missa allt sitt“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Eigendur 223 smærri fyrirtækja sendu öllum þingmönnum á Alþingi bréf á mánudaginn, þar sem krafist er aðgerða til þess að bregðast við vanda fyrirtækjanna. Eigandi veitingahúss á Hvolsvelli segir að lítil fyrirtæki um allt land séu að missa allt sitt.

Fjölmörg lítil fyrirtæki hafa lent í vandræðum eftir að faraldurinn skall á. Á meðal þeirra er Eldstó, veitingastaður, gistiheimili og gallerý á Hvolsvelli.

„Það varð algjört tekjufall í fyrstu bylgjunni í tvo og hálfan mánuð, bara 100% tekjufall, og 75% núna í september þannig að ég skellti bara í lás,“ segir Guðlaug Helga Ingadóttir, einn eigenda Eldstóar.

Atvinnuleysisbætur fyrir suma

Eldstó er fjölskyldufyrirtæki og bæði eiginmaður Guðlaugar Helgu, börn hennar og tengdabörn hafa haft atvinnu af að vinna þar.

Þannig að það að það sé búið að loka hér hefur mikil áhrif á þig og þína fjölskyldu?

„Það hefur það. Það eru bara atvinnuleysisbætur fyrir suma, það er ekkert öðruvísi.“

Eldstó er á meðal 223 lítilla fyrirtækja hér á landi, sem hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda, þar sem þess er krafist að gripið verði til aðgerða til að bæta stöðu þeirra. Áskorunin var send öllum þingmönnum á mánudaginn. 

Margir í vandræðum

Sjálf er Guðlaug Helga ósátt við aðgerðir stjórnvalda. Þannig segir hún að stuðningslánið sem hún tók sé aðeins gálgafrestur.

„Ég er mjög óhress með að það séu ekki neinir styrkir í boði fyrir ferðaþjónustuaðila. Og að sú lína sé sett að það séu bara þeir sem eru skikkaðir til að loka geti sótt um styrki. En við erum neydd til að loka.“

Þannig að þú myndir vilja sjá einhverja styrki fyrir aðila eins og ykkur?

„Að sjálfsögðu. Það er svo mikið af fólki sem er í vandræðum. Þetta er svo mikið af litlum fyrirtækjum um allt land sem eru að missa allt sitt.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Sérðu fram á að geta opnað aftur?

„Ég geri mér nú vonir um að geta gert það. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á þessu COVID. Ég veit ekki hvort ég geti opnað eftir áramótin eða hvort ég þurfi að bíða fram á næsta sumar. Það er kannski trúlegra,“ segir Guðlaug Helga.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV