
Smit í skammtímavistun og skipverji með einkenni
Samkvæmt upplýsingum á covid.is hafa 20 ný smit bæst við á Norðurlandi eystra frá því í gær en það er rangt samkvæmt Hermanni Karlssyni hjá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi eystra. Aðgerðarstjórnin hefur óskað útskýringa á röngum tölum en ekki fengið að vita hvað veldur þeim. 104 voru í einangrun á Norðurlandi eystra við hádegisbil í dag.
Þrír af þeim sem greindust í gær voru utan sóttkvíar. Eitt nýtt smit bættist við á Dalvík, sá einstaklingur var í sóttkví, þar hefur því ekki greinst smit utan sóttkvíar frá því fyrir helgi.
Hermann segir ekki hægt að segja að staðan sé að lagast. Smitum utan sóttkvíar fækki, en þau séu enn að greinast og viðhaldi þróuninni sem sé ekki gott. „Vonum bara að við förum að sjá að það sé virkilega að hægjast á þessu en það eru ekki skilaboðin í dag til okkar,“ segir hann. Sex eru í einangrun á farsóttahúsi og einn í sóttkví.
Smit í skammtímavistun fyrir fatlaða
„Starfsmaður í skammtíma- og frístundaþjónustu fyrir fatlaða á Akureyri hefur greinst með COVID-19. Viðkomandi starfaði í Þórunnarstræti 99 og hefur starfsemi þar verið lögð af á meðan smitrakning fer fram. Af þessum sökum þurfa um eða yfir 30 starfsmenn og notendur þjónustunnar að fara í sóttkví og verður lokað í Þórunnarstræti 99 að minnsta kosti út þessa vikur“ Segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. Allir sem hafi verið í beinum samskiptum við starfsmanninn þurfi að fara í sóttkví. Smitrakningin teygi sig líka í þjónustukjarna í Klettaborg, Kjarnagötu og Sporatúni en vonast er til þess að áhrifin verði óveruleg á starfið þar.
Skipverjar á leið í sýnatöku
Hermann segir skip á leiðinni í land, það komi inn til Akureyrar síðar í dag. Um borð sé einn skipverji með einkenni. Það verði því tekin sýni og skipverjar settir í sóttkví á meðan beðið er eftir niðurstöðum. Skipið er íslenskt og hefur verið á veiðum norðan við landið í nokkra daga. Ekki fengust frekari upplýsingar að svo stöddu en Hermann segir þetta skýrast betur þegar líður á daginn.