Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Margir sóttu um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í gær þegar opnað var fyrir umsóknir. Á það bæði við um tekjulága og byggingaverktaka, sem vilja byggja hagkvæmt húsnæði. Fyrsta úthlutun verður væntanlega fyrstu vikuna í desember. Enn er beðið eftir reglugerð. 

Tekjulágir ættu að eiga möguleika

Lög um hlutdeildarlán tóku gildi í fyrradag. Þau eru hluti af stuðningi stjórnvalda til lífskjarasamninga í fyrravor og er ætlað að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa fyrstu íbúð sína að uppfylltum skilyrðum.

Ekki þarf að greiða af hlutdeildarláninu í allt að 20 ár en greiða þarf það upp þegar íbúð er seld. Lánið nemur fimmtungi af kaupverði. Ekki fengust upplýsingar fyrir fréttir í félagsmálaráðuneytinu um hvenær von væri á reglugerðinni. 

Greitt út í byrjun desember

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir umsóknir verða metnar þegar reglugerðin liggi fyrir. 

„Það er gert ráð fyrir því að að því gefnu að reglugerðin hafi tekið gildi að fyrsta umsóknartímabilinu ljúki núna 20. nóvember. Og fyrsta úthlutun verður þá vonandi fyrstu vikuna í desember.“

Hún segir áhugann mikinn. Án þess að auglýst hafi verið sérstaklega bárust 23 umsóknir um hlutdeildarlán í gær þegar opnað var fyrir umsóknir. Byggingaverktakar eða -fyrirtæki sendu inn fjórtán umsóknir. Til þess að íbúð sé gjaldgeng í hlutdeildarlánakerfið þarf byggingafyrirtæki sem á eða ætlar að byggja íbúðina að semja við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. 

Hörð gagnrýni í mörgum umsögnum

Margar athugasemdir bárust um reglugerðardrögin á samráðsgátt stjórnvalda. Bent var á að erfitt yrði að finna nýja íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem uppfyllti kröfur um verð, stærð og fjölda herbergja. Skipulagsstofnun gagnrýndi hagkvæmiskröfur í drögunum og að ekki væru sett gæðamarkamið. Svipuð gagnrýni kom meðal annars frá Arkitektafélaginu og Hönnunarmiðstöð.  Reykjavíkurborg telur að húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sé sett í forgang og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu telja reglugerðardrögin geta unnið gegn stefnu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisns og vísuðu í samgöngusáttmála sem ríkið gerði við sveitarfélögin.