Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjandi að skrifa Skaup á fjarfundum

Mynd: RÚV / RÚV

Krefjandi að skrifa Skaup á fjarfundum

03.11.2020 - 19:50

Höfundar

Þetta hefur verið annasamt ár fyrir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, teiknara, tónlistarmann og rithöfund. Hún einsetti sér að klára eina teikningu á hverjum degi, var að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu og er einn af höfundum Skaupsins.   

Lóa Hlín er einkum þekkt fyrir vinsælar myndasögur sem koma út undir nafninu Lóaboratoríum en áður en hún haslaði sér völl í myndasögugerð sló hún í gegn með hljómsveitinni FM Belfast.  

Kaffiknúið málæði varð að bók

Á dögunum sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, barnabókina Grísafjörð, sem fjallar um tvíburasystkin sem ætla að slappa af með tilþrifum í sumarfríinu en fara í óvænt ferðalag fyrir tilstilli nágranna síns.  

„Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þessa bók er sú að mig langaði til að fara á staðinn þar sem svínin búa, það er eyja þar sem búa bara svín – enginn veit hvers vegna. Þetta er svona Instagram-eyja þar sem fullt af fólki fer og lætur taka myndir af sér með svínum. Mér finnst það mjög heillandi. Svo er fyndið að láta það heita Grísafjörð, því það hljómar eins og Ísafjörður.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lóa segir að ástæðan fyrir því að bókin sé komin út hafi verið kaffidrifið málæði sem hún hafi fengið á fundi með forlaginu Sölku, þar sem hún hafi látið gamminn geisa um þennan Grísafjörð.

„Þær spurðu hvort ég gæti ekki sent eitthvað um þetta þannig að ég álpaðist þangað, ég álpast mjög mikið. Þess vegna hef ég komið við á mörgum stöðum.“  

Lyklabarn sem álpast á milli listgreina

Lóa rifjar upp að ferillinn með FM Belfast hafi hafist með áþekkri tilviljun en myndasögurnar hafi hins vegar fylgt henni alla tíð. Hún hafi gert fyrstu myndasöguna þegar hún var átta ára og þurfti að hafa ofan fyrir sjálfri sér. 

„Ég var mjög mikið lyklabarn, sjónvarp, kakómalt, teikna ógeðslega mikið ein. Þetta er form af skemmtun fyrir mér. Mér finnst gaman að geta teiknað mynd og sagt aðra sögu með textanum, unnið það þannig.“  

Kannski eru allir utangátta

Segja má að bugun og vandræðagangur sé gegnumgangandi stef í myndheimi Lóu.  

„Það er af því að ég er yfirleitt með of mikið á minni könnu og er alltaf hálfbuguð. Mér finnst allt rosalega flókið og á auðvelt með að fá þá tilfinningu að eitthvað sé framandi, bara eins og að standa í röð. Og líka hugsunin: Er þetta það sem ég vil vera að gera þegar ég dey? Ég hugsa það oft, sérstaklega þegar ég er að gera eitthvað asnalegt.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hún segir að hafi komið sér á óvart þegar það rann upp fyrir henni að aðrir tengdu við myndirnar.

„Ég hélt að ég væri utangátta en kannski eru það allir og allir að gera hluti og enginn veit af hverju.“  

Kannski á hátindi rétt fyrir taugaáfall

Um síðustu áramót fækkaði Lóa við sig verkefnum en til að halda sér við efnið ákvað hún að klára eina teikningu á dag og birta jafnóðum á netinu. Þá tekur hún þátt í að skrifa áramótaskaupið annað árið í röð. Og þvílíkt ár til að skrifa skaup um.  

„Það er rétt, þetta er mjög skrítið. Þetta er ótrúlega skemmtilegt fólk sem ég er að vinna með og algjör synd að við megum ekki hittast. Ég þarf að vanda mig að vera ekki hlæjandi ofan í allt. Brandarar og samskipti, það er flæði í þeim en það er svo lítið flæði á Zoom-fundum. Ef þú ræskir þig birtist mynd af þér, þú ætlaðir ekki að trufla og þú eyðileggur flæði sem var rétt byrjað að myndast.“  

Nú er handritið tilbúið og Lóa Hlín sér afraksturinn á gamlárskvöld. Hún segist þó ekki vera farin að slaka á. 

„Nei, ég er svo mikið ofan í þessu og ekki beinlínis með yfirsýn í þetta. Ég búin að setja mér fáránlegt verkefni að gera 366 myndasögur á árinu, svo er ég að skrifa áramótaskaupið og gefa út þessa bók. Kannski er ég á hátindi áður en ég fæ taugaáfall.“  

Rætt var við Lóu Hlín í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hvers vegna glápa Reykvíkingar á mig?

Tónlist

„Við eigum næstum því tíu krakka samtals“

Menningarefni

Vandræðagangur með hversdaginn