Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Guðni sendi samúðarkveðjur til Austurríkis og Tyrklands

03.11.2020 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi í dag samúðarkveðju íslensku þjóðarinnar til forseta Tyrklands og Austurríkis vegna atburða þar síðustu daga.

Í kveðju til Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, sendi Guðni samúðarkveðjur vegna jarðskjálftans sem reið yfir í grennd við borgina Izmir á föstudag. Yfir eitt hundrað létust vegna skjálftans og enn er verið að leita að fólki í rústum.

Alexander van der Bellen, forseta Austurríkis, var svo vottuð samúð vegna hryðjuverka sem framin voru í Vínarborg í gær. 

Í kveðju Guðna sagði að Íslendingar hugsuðu til þeirra sem misst hefðu ástvini sína vegna þessara atburða.