„Gerum okkur grein fyrir að það er töluverð óvissa“

Mynd: cc / cc

„Gerum okkur grein fyrir að það er töluverð óvissa“

03.11.2020 - 14:20

Höfundar

Þórey Einarsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, segir að undirbúningur fyrir hátíðina á næsta ári sé þegar farinn af stað. Henni þykir ótrúlegt að það séu aðeins fjórir mánuðir síðan hátíðin fór síðast fram því henni líði eins og það hafi verið í fyrra. Opnað hefur verið fyrir umsóknir á hátíðina.

Ákveðið hefur verið að fresta hátíðinni fram í maí en í ár fór hún ekki fram fyrr en í júní vegna samkomutakmarkana í vor. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir á hátíðina 2021 á heimasíðu hátíðarinnar og rennur fresturinn út í lok nóvember. Búist er við miklum fjölda umsókna en í ár bárust fleiri en tvö hundruð.

Hátíðin er opin öllum og Þórey segir að hún sé einstakt tækifæri til að efla samtalið á milli óíkra sviða í samfélaginu. „HönnunarMars er stærsta kynningarafl íslenskrar hönnunnar og arkitektúrs,“ segir Þórey. „Þetta er einstakur vettvangur þar sem allar greinar hönnunar sameinast og draga fram það sem er að gerast í þeim geirum.“ Breiddin á hátíðinni sé gífurleg og þar sé pláss fyrir ýmsar ólíkar og mis-hversdagslegar hliðar hönnunar. „Við erum með allt frá fatahönnun og arkitektúr yfir í matarhönnun, upplifunarhönnun og hönnun á samfélaginu,“ segir hún. „Það er óhætt að segja að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og við höfum lagt upp með það.“

Samfélag hönnuða er verulega öflugt, að mati Þóreyjar. Fáir eru jafn vel í stakk búnir til að laga sig að breyttu landslagi og takmörkunum með skapandi lausnum. „Þetta er landslið í að leysa mál og koma með lausnir svo við bíðum spennt að sjá hvað kemur inn,“ segir hún.

HönnunarMars er ekki keppni en valnefnd leggur áherslu á að verkefnin séu fagleg, áhugaverð og áhrifamikil. Á hverju ári myndast svo eftir að verkefnin hafa verið valin einhvers konar þema eða taktur sem ekki er fyrir fram ákveðinn. „Valnefndin leitar að tengingum á milli viðfangsefna og tengir þau saman. Það er svo frábært að HönnunarMarsinn tekur alltaf á sig eigin mynd. Þegar umsóknir eru komnar sér maður alltaf að það eru þræðir sem tengja þær saman,“ segir Þórey. „Það er töluverð breidd en oft spegill á það sem er að gerast í samfélaginu.“

Umsóknarferlið er styttra í ár en oft áður en Þórey bendir á að umsóknir þurfi ekki að vera fullunnar. „Við gerum okkur grein fyrir að það er töluverð óvissa,“ segir hún. „Það verður mikill sveigjanleiki í ferlinu og útfærslu á hátíðinni.“

Hraðinn er mikill á óvissutímum og nú fylgjast skipuleggjendur grannt með hvaða lausnir eru til staðar til að miðla starfænt og rafrænt. „Það eru spennandi tímar núna að sjá hvað við ætlum að gera í maí. Við vitum ekki það sem við vitum ekki núna.“

Rúnar Róbertsson ræddi við Þóreyju Einarsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Hönnun

Hönnunarmars 2021 fer fram í maí

Höfuðborgarsvæðið

Hægt að fræðast um Borgarlínuna á nýrri sýningu