Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Eins og að vera stödd í kvikmynd eða bók“

Vatnsendaskóli
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Þetta er eins og að vera stödd í kvikmynd eða bók. Þetta segir nemandi í unglingadeild Vatnsendaskóla í Kópavogi. Skólastarf í grunnskólum landsins er nú með breyttu sniði í kjölfar hertra sóttvarnareglna. Skólastjóri segir mikilvægast að geta haldið úti skólastarfi.

Frá deginum í dag og til 17. nóvember verður grímuskylda í efri bekkjum grunnskóla þar sem ekki er hægt að gæta að tveggja metra reglunni og skóladagurinn hefur verið styttur. Þau Gunnlaugur Friðjónsson, Embla Björg Sigurðardóttir og Sunna Sól Pálsdóttir í unglingadeild Vatnsendaskóla segja að það hafi verið nokkuð sérstök upplifun að mæta í skólann í morgun.

„Það er svolítið sérstakt að vera með grímuna og svo eru alveg tveir metrar á milli allra,“segir Gunnlaugur. „Mér finnst skrýtið að fá ekki að vera með vinkonum mínum og sitja saman og fá mat ekki í skólanum. Og bara tala inni á einhverju appi í i-paddinum eftir skóla,“ segir Embla. „Það er erfitt að vera ekki með vinum sínum, að læra með þeim, vera í hópnum sínum og borða með þeim og allt það,“ segir Sunna.

Það er misjafnt hvernig krökkunum líður í þessu breytta námsumhverfi. Gunnlaugur segist óttast að detta aðeins úr rútínu í fjarnáminu. „Ég reyni samt alltaf að vinna aðeins heima,“ segir hann. Embla segir að sér þætti betra ef námið færi eingöngu fram í skólanum, þar sé meira skipulag en Sunnu þykir þægilegra að stunda námið heima við.

Spurð hvort þetta nýja fyrirkomulag hafi áhrif á líðan þeirra segja þau að ekki sé hægt að komast hjá því að svo verði.

„Þetta er svolítið súrrealískt,“ segir Gunnlaugur. „Mér finnst eins og þetta hafi áhrif á líkamlega og andlega heilsu,“ segir Embla.

„Mér líður mjög mikið þannig að þetta sé einhver kvikmynd eða bók, allir með grímu. Þetta er allt mjög skringilegt,“ segir Sunna. 

María Jónsdóttir skólastjóri í Vatnsendaskóla segir að það hafi verið talsverð vinna að endurskipuleggja skólastarfið með svo skömmum fyrirvara. 

„En allt gekk þetta upp og við teljum að við séum að gera þetta eins vel og við getum við þessar aðstæður. Við teljum gríðarlega mikilvægt að þau séu að mæta í skólann alla daga og að það sé rútína hjá þeim. Þau mæti og svo halda þau áfram vinnunni heima. Ég held að öllum líði svolítið skringilega,“ segir María.