Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Brotthvarf frá námi hefur aldrei mælst minna

03.11.2020 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Brodie Vissers - burst.shopify.com
Aldrei hefur hærra hlutfall þeirra sem skráðir eru í framhaldsskóla hér á landi útskrifast og brotthvarf frá námi hefur aldrei mælst minna. Þetta sýnir ný samantekt Hagstofu Íslands. 60% þeirra sem hófu framhaldsskólanám haustið 2015 höfðu útskrifast fjórum árum síðar. Eftir því sem fólk er yngra þegar það flytur hingað til lands, þeim mun líklegra er að það ljúki framhaldsskólanámi á tilsettum tíma.

Í samantekt Hagstofu segir að svokallað brautskráningarhlutfall, sem er hlutfall þeirra nemenda sem brautskráðst eftir fjögurra ára nám eða styttra, hafi hækkað um 36% á milli áranna 2018 og '19. 

Brotthvarf í hópi þeirra sem hófu framhaldsskólanám haustið 2015 er 23% og hefur ekki mælst minna. Til samanburðar var það 27,4% hjá þeim sem hófu nám 2011. 

Í samantekinni eru einnig birtar tölur um stöðu innflytjenda í skólakerfinu. Munur er á henni eftir því á hvaða aldri þeir fluttu til landsins. Þeir sem fluttu hingað fyrir sjö ára aldur standa talsvert betur að vígi en þeir, sem voru eldri þegar þeir fluttu hingað.  Brautskráningarhlutfall þeirra innflytjenda sem fluttu hingað fyrir sjö ára aldur er 57,8% en 43% hjá þeim sem voru eldri þegar þeir fluttu. 

Þá eru konur líklegri en karlar til að ljúka framhaldsskólanámi á fjórum árum eða skemur. 68,3% allra kvenna hafa útskrifast innan fjögurra ára og 51,4% karla.