Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Árásin í Vín kemur ekki á óvart segir fastafulltrúi

03.11.2020 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hryðjuverkaárásin í Vínarborg í gærkvöldi kom ekki á óvart, segir fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Árásin var rétt hjá skrifstofu fastafulltrúans Guðna Bragasonar. Guðni fór heim af skrifstofunni tíu mínútum áður en árásin var gerð. 

„Hún er eiginlega bara 2-3 götur frá árásarstaðnum og leikurinn, ef svo er hægt að komast að orði, barst mjög nálægt Fastanefndinni hér í miðborginni. Þessir ódæðismenn reyndu að ná til fólk sem var á veitingastöðum og hafði komið hérna saman í miðbænum. Þetta var síðasta kvöldið fyrir lokun á veitingastöðum. Það gengur allt saman í gildi í dag og fyrir vikið var töluvert af fólki á götunni og það var ráðist á fólk á nokkrum stöðum,“ segir Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Guðni var nýfarinn af skrifstofunni þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. 

„Ég var nú að vinna hérna fram eftir og fór af skrifstofunni tíu mínútur fyrir átta og svo skildist mér að þessar árásir hefðu hafist um klukkan átta svo ég frétti ekki af þeim fyrr en ég var komin heim,“ segir Guðni.

Hann segir engar fréttir hafi borist af því að Íslendingar í borginni hafi orðið fyrir búsifjum. Þegar Guðni fór til vinnu í morgun var búið af aflétta lokunum vegna árásarinnar.

„En mikil öryggisgæsla og að sjálfsögðu færra fólk á ferli,“ segir Guðni.

Kom þetta þér á óvart, þessi árás?

„Í raun og veru ekki. Við höfum fylgst með því sem hefur verið að gerast í öðrum borgum síðustu daga og vikur. Vín hefur áður verið skotmark þannig að það mátti alveg eins búast við því að það gerðist eitthvað þessu líkt hér eins og annars staðar. En yfirleitt er þetta friðsæl borg og gott að búa í,“ segir Guðni.