Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Varað við stormi og roki á mánudag og þriðjudag

02.11.2020 - 01:45
17. júlí 2020
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum
Gul veðurviðvörun verður í gildi í nótt á morgun, mánudag, á Norðurlandi eystra og miðhálendinu. Þá er varað við stormi eða jafnvel roki á Austurlandi aðfaranótt þriðjudags og fram á þriðjudagskvöld.

 

Gul viðvörun frá 7 - 22 á Norðausturlandi

Á Norðurlandi eystra verður viðvörunin í gildi frá klukkan sjö að morgni til klukkan 22 í kvöld. Spáð er vestan hvassviðri eða stormi, 15-23 metrum á sekúndu með éljum og hvössum vindstrengj-um við fjöll, allt upp í 30 metra á sekúndu. Á fjallvegum má búast við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Vitlaust veður á hálendinu og hættulegar aðstæður fyrir rjúpnaskyttur

Á miðhálendinu tekur viðvörunin gildi klukkan ellefu fyrir hádegi og gildir til klukkan átján. Stormurinn á hálendinu blæs að vestan og norðvestan. Hann verður 15 - 23 metrar á sekúndu og enn hvassari við fjöll með vindhviðum upp í 40 metra á sekúndu. Vindur mun ganga eitthvað niður á vestanverðu hálendinu þegar líður á dagin en hvessir austantil.

Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við lélegu skyggni í éljum og skafrenningi þar efra, sem getur skapað mjög hættulegar aðstæður fyrir rjúpnaskyttur.

Stormur og rok á Austurlandi aðra nótt og á þriðjudag

Á Austurlandi er varað við norðvestan stormi og jafnvel roki frá klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags til klukkan 22 á þriðjudagskvöld. Spáð er meðalvindhraða allt að 28 metrum á sekúndu og mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, allt upp í 45 metra á sekúndu.

Samgöngutruflanir eru sagðar líklegar og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin gildir. Nauðsylegt er að sýna fyllstu aðgætni, tryggja lausamuni til að forðast slys og foktjón og fylgjast með veðurspám.  
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV