Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrír sátu lengur á þingi en Steingrímur J.

02.11.2020 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þegar Steingrímur J. Sigfússon lætur af þingmennsku á næsta ári verða aðeins þrír þingmenn búnir að sitja lengur á Alþingi en hann. Á þessu kjörtímabili tekur hann fram úr níu fyrrverandi þingmönnum á lista yfir þaulsætnustu þingmenn sögunnar. Sá sem sat lengst á þingi var þar í hátt í hálfa öld, frá því Ísland heyrði undir Danakonung þar til það var orðið lýðveldi.

Samkvæmt yfirliti í Handbók Alþingis, sem gefin er út eftir hverjar kosningar, hafa 28 þingmenn setið á Alþingi í 30 ár eða lengur. Þar af er aðeins eins kona, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra.

Af núverandi þingmönnum hefur Steingrímur eðli málsins samkvæmt setið lengst á þingi. Næst á lista er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, með næstum átján ára þingferil, tuttugu árum styttri en Steingrímur. Því næst koma Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson.

Fjórir núverandi þingmenn tóku fyrst sæti á þingi á siðustu öld. Það voru þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem kom inn sem varaþingmaður 1992-1993 og Guðlaugur Þór sem kom inn undir sömu formerkjum fjórum árum síðar. Þorgerður Katrín var fyrst kosin á þing 1999 en gerði síðar hlé á þingmennsku sinni.

Sjö með 37 ár eða meira

Mynd með færslu

Pétur Ottesen
1916-1959, 42 ár og tæpir átta mánuðir

Pétur Ottesen var fyrst kjörinn á þing í miðri fyrri heimsstyrjöld, sat á þingi í gegnum kreppuna miklu, seinni heimsstyrjöld og fram í kalt stríð. Pétur var því þingmaður á heimastjórnartímanum þegar Ísland var hluti Danmerkur, á fullveldistímanum þegar Konungsríkið Ísland deildi konungi með Danmörku og á lýðveldistímanum eftir 1944. Tilurð flokkakerfisins sést líka vel á þingferli Péturs. Á næstum 43 ára ferli sat Pétur á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þversum, Sjálfstæðisflokkinn eldri, Sparnaðarbandalagið, Borgaraflokkinn eldri, Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Mynd með færslu

Eysteinn Jónsson
1933-1974, 40 ár og um níu mánuðir

Eysteinn Jónsson var kosinn á þing í kreppunni miklu, fyrir Suður-Múlasýslu og sat á þingi allt til ársins 1974, síðustu fimmtán árin fyrir Austurland. Eysteinn varð ráðherra yngstur allra árið 1934 þegar hann tók við fjármálaráðuneytinu aðeins 27 ára að aldri. Hann hafði einn orðið ráðherra fyrir þrítugt þar til Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir urðu ráðherrar á þessu kjörtímabili. Eysteinn sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn allan sinn feril og var formaður flokksins árin 1962 til 1968.

Mynd með færslu

Ólafur Thors
1926-1964, rétt tæp 39 ár

Ólafur Thors var kosinn á þing 1926 og sat á þingi þar til hann lést á gamlársdag 1964. Ólafur varð fimm sinnum forsætisráðherra, oftast allra, og aðeins tveir menn hafa gegnt því embætti lengur, þeir Davíð Oddsson og Hermann Jónasson. Ólafur var meðal annars forsætisráðherra í Nýsköpunarstjórninni, þar sem Sósíalistar og Sjálfstæðismenn unnu saman ásamt Alþýðuflokksmönnum, og Viðreisnarstjórninni. Ólafur var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1934 til 1961. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1926 en var þingmaður Reyknesinga síðustu ár stjórnmálaferils síns eftir að kjördæmakerfinu var gjörbreytt.

Mynd með færslu

Steingrímur J. Sigfússon
1983-2021, 38 og hálft ár

Steingrímur var kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1983, þá 27 ára að aldri. Hann var ráðherra í tveimur ríkisstjórnum með átján ára millibili, fyrst 1988 til 1991 og síðan í vinstristjórninni 2009 til 2013. Þegar Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Kvennalisti og Þjóðvaki komu sér saman um sameiginlegt framboð, Samfylkinguna, árið 1999 fór Steingrímur sínar leiðir. Hann stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og var formaður hennar í fjórtán ár.

Mynd með færslu

Gunnar Thoroddsen
1934-1937, 1942-1965 og 1971-1983, 37 ár og um átta mánuðir

Gunnar Thoroddsen var kosinn á þing 23 ára og 177 daga gamall árið 1934. Hann var yngsti þingmaður Íslandssögunnar þar til Jóhanna María Sigmundsdóttir var kosin á þing 21 árs og 303 daga gömul árið 2013. Á löngum stjórnmálaferli var hann borgarstjóri, forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Hann var sendiherra í Kaupmannahöfn, hæstaréttardómari og prófessor við Háskóla Íslands auk þess að bjóða sig fram til forseta í sex ára fjarveru frá Alþingi og ríkisstjórn 1965 til 1971. Gunnar var varaformaður Sjálfstæðisflokksins þegar hann myndaði stjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalagi, gegn vilja flokksins, og fékk nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins með sér.

Mynd með færslu

Lúðvík Jósepsson
1942-1979, 37 ár og rúmur mánuður

Lúðvík Jósepsson var kosinn á þing fyrir Sósíalistaflokkinn í miðri seinni heimsstyrjöld og sat á þingi í tæpa fjóra áratugi, lengi sem þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, sem var stofnað upp úr Sósíalistaflokknum. Hann sat líka í bæjarstjórn Neskaupstaðar í 32 ár, sem var löngum uppnefnd Litla Moskva vegna þess að Sósíalistaflokkurinn réði þar lögum og lofum. Lúðvík var formaður Alþýðubandalagsins í þrjú ár í lok stjórnmálaferils síns, frá 1977 til 1980.

Mynd með færslu

Emil Jónsson
1934-1971, 37 ár, rétt tæp

Emil Jónsson var kosinn á þing sem fulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfjarðarkjördæmi árið 1934 og var lengst af þingmaður þess kjördæmis eða landskjörinn þar til Reykjaneskjördæmi varð til 1959. Emil var bæjarstjóri í Hafnarfirði í sjö ár og sat í bæjarstjórn í 32 ár. Forsætisráðherra í minnihlutastjórn sem undirbjó kjördæmabreytinguna 1959 og ráðherra öll viðreisnarárin. Emil var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár.

Viðbót 12:25 Því skal haldið til haga að útreikningar miðast við að kjörtímabilið verði full fjögur ár og Steingrímur gegni þingmennsku út kjörtímabilið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV