Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Smit í hópi ákærðra seinka Charlie Hebdo-réttarhöldum

epa08781392 Copies of the new edition of the French satirical magazine Charlie Hebdo with a caricature of Turkish President Erdogan on its front page are on display at a kiosk newspaper in Paris, France, 28 October 2020. Ankara prosecutor's office launched an official investigation into the publication of the Erdogan cartoon by Alice on the cover of the Charlie Hebdo satirical weekly.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Réttarhöldum í tengslum við árásina á ritstjórn franska tímaritsins Charlie Hebdo hefur verið frestað um minnst eina viku vegna COVID-19 smita í hópi hinna ákærðu. Fjórtán eru ákærð fyrir að hafa verið í vitorði með illvirkjunum þremur sem myrtu samtals 17 manns í og eftir árásina á Charlie Hebdo í París í janúar 2015.

Þrjú hinna ákærðu eru fjarverandi og talin hafa flúið til Íraks eða Sýrlands skömmu fyrir árásina, en hin ellefu eru í haldi. Eitt þeirra, Ali Riza Polat, greindist með COVID-19 um helgina. Frestaði dómarinn þá málflutingi til miðvikudags og gaf fyrirmæli um að sýni skyldi tekið úr öllum í hópi ákærðra. Tveir til viðbótar reyndust smitaðir og aðrir tveir hafa verið settir í sóttkví, þar sem þeir eru taldir hafa verið í nánum samskiptum við hina smituðu. Niðurstöður greininga á þeim sýnum sem út af standa eiga að berast í dag.

Réttarhöldin hófust 2. september og áætlun gerði ráð fyrir að verjendur flyttu málsvörn skjólstæðinga sinna 6., 9., 10. og 11. nóvember, og að úrskurður yrði upp kveðinn þann 13. Það mun ekki ganga eftir.