Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Minnst 16 fórust í fellibylnum Goni

02.11.2020 - 05:35
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Filippseyjar · Víetnam · Veður
epa08790376 A fisherman returns to shore after securing his boat and retrieving items as typhoon Goni intensifies in Manila Bay, Manila, Philippines, 01 November 2020. Super Typhoon Goni, with winds forecasted to reach over 240 kilometers per hour, made landfall on 01 November 2020, in the Philippine provinces of Albay, Camarines Sur and Quezon.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 16 létust í hamförunum af völdum ógnarstormsins Goni, sem gekk yfir hluta Filippseyja um helgina og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Goni er 18. fellibylurinn sem skellur á Filippseyjum í ár og sá öflugasti sem geisað hefur í heiminum það sem af er þessu ári. Mestur meðalvindhraði mældist yfir 60 metrar á sekúndu og í heiftarlegustu hviðunum fór hann upp fyrir 85 metra á sekúndu.

Hundruðum þúsunda var gert að yfirgefa heimili sín við suðausturströnd Luzon-eyjar og forða sér lengra upp í land. Yfirvöld fullyrða að þessi ráðstöfun hafi bjargað fjölda mannslífa.

Flest hinna látnu drukknuðu í flóðum og aurskriðum sem urðu vegna ofsarigninga sem fylgdu veðurofsanum, og enn er töluverð úrkoma í filippeysku veðurkortunum.

Rodrigo Duterte, forseti Filipsseyja, er væntanlegur á hamfarasvæðið í dag til að kynna sér afleiðingar fellibylsins. Fjöldi bygginga, samgöngumannvirkja og annarra mannvirkja skemmdist og eyðilagðist í fárviðrinu, ýmist af völdum stólparoksins eða skyndiflóða, aurskriðna og sjávarflóða sem fylgdu því. 

Fellibylurinn á leið til Víetnam

Goni mjakast nú yfir hafið í átt til Víetnam, þar sem ætlað er að hann taki land að kvöldi miðvikudags. Úrhelli fylgir honum enn sem fyrr og mun að líkindum valda frekari flóðum og aurskriðum í Víetnam, þar sem um 160 manns hafa þegar týnt lífinu í slíkum hamförum síðastliðinn mánuð.