Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gul stormviðvörun og ekkert ferðaveður

02.11.2020 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Gul stormviðvörun hefur verið gefin út fyrir Norðurlandi eystra, miðhálendi og Austurland. Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á fjallvegum á norður- og Austurlandi á meðan viðvörunin er í gildi.

Lélegt skyggni og vond akstursskilyrði

Það spáir vestan- og norðvestan átta til átján metrum á sekúndu en sums staðar fimmtán til tuttugu við norðurströndina í dag. Skúrir eða él, en slydda eða snjókoma nyrst. Veðurstofan segir ekkert ferðaveður vera á Norður- og Austurlandi á meðan viðvörunin er í gildi en búast megi við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á fjallvegum. Viðvörunin gildir þar til annað kvöld.
Á miðvikudag og fimmtudag er svo vindur orðinn suðvestlægari og þá hlýnar talsvert en vætusamt verður vestantil á landinu.

„Hryssingslegt og vetrarleg úrkoma“

Í pistli veðurfræðings Veðurstofu Íslands segir að búast megi við hryssingslegu veðri á vesturhelmingi landsins. „Gul viðvörun á Tröllaskagasvæðinu í dag, enda hvasst með ofankomu, sömu sögu er að segja af Miðhálendinu, en mesta úrkoman þar er vestantil á svæðinu. Almennt verður veðrið á vesturhelmingi landsins hryssingslegt og vetrarleg úrkoma og jafnvel gætu skúrir á Faxaflóa og á Suðurlandi verið á slydduformi framan af morgni í það minnsta. Það þýðir líka að úrkoma fellur sem slydda eða snjókoma ofan 100-200 metra og líklegt er að úrkoman á Vestfjörðum og Norðurlandi verði enn vetrarlegri en á suðvesturhorninu.“