Gaf sig almættinu á vald eftir að nemandi drukknaði

Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV

Gaf sig almættinu á vald eftir að nemandi drukknaði

02.11.2020 - 14:23

Höfundar

Tómas J. Knútsson, maðurinn á bak við Bláa herinn, tileinkar allt sitt umhverfisstarf nemanda sínum sem lést við köfun í köfunarskóla Tómasar árið 1998. Hann segir að banaslysið sé mesta högg sem hann fengið í lífinu.

Tómas, sem fæddist í bragga árið 1957, er alinn upp í Keflavík og segir að það séu ein mestu forréttindi sem til eru að fá að slíta barnskónum þar. Hann ræddi við Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum og sagði frá lífinu og starfi sínu í þágu umhverfisins.

Faðir Tómasar, sem var danskur, vann hjá Essó á Keflavíkurflugvelli og þar spígsporaði Tómas um, lærði ensku og sótti hattana sem fuku af konum sem komu úr flugvélum og áttu ekki von á rokinu. „Ég fékk einu sinni tíu dollara hjá rosalega fínni frú fyrir að finna hattinn hennar og ég man hvað mér fannst þetta mikill peningur,“ rifjar hann upp.

„Ég var kannski meira lifandi en aðrir“

Eftir barnaskóla var Tómas tvo vetur á heimavist á Núpi í Dýrafirði og minnist þeirra ára með mikilli hlýju. „Þetta voru bestu tímar sem maður fékk að upplifa. Við erum enn að halda Núpshittinga og höfum alltaf haldið góðum vinskap,“ segir hann. Börn sem send voru á heimavist á þessum tíma höfðu orð á sér fyrir að vera vandræðagemsar en það segist Tómas þó ekki hafa verið. „Ég var kannski meira lifandi en aðrir á þessum tíma, meira en ég hef viðurkennt fyrir sjálfum mér. Ég var örugglega með ADHD,“ segir hann.

En heimavistin þroskaði hann. „Maður varð ákveðnari þegar maður kom til baka og treysti sér betur út í lífið. Þú gast ekki lagst á öxlina á mömmu og pabba að væla ef það var eitthvað prógramm í gangi sem var öðruvísi en þú vildir.“

Var sjálfur á pallinum nokkrum dögum fyrir slysið

Tómas var um tíma vélvirki á norskum olíuborpöllum og þar undi hann sér vel þar til hann lenti í miklu áfalli. „Þetta var skemmtilegur tími en líka tragískur,“ segir Tómas. Þegar Tómas var enn við störf í Noregi fórst borpallurinn Alexander Kielland, sem Tómas starfaði meðal annars á, og margir menn með honum. „Ég var sjálfur á Kielland bara nokkrum dögum áður en honum hvolfdi,“ segir Tómas.

Hann hafði sent föður sínum póstkort á afmælinu sínu þar sem hann greindi frá því að hann hygðist vera í Noregi til 1. apríl. Slysið varð 27. mars og um hríð vissi faðir Tómas ekki hvort hann hefði verið á meðal þeirra sem týndu lífi í slysinu. „Það versta var að það var talað um að það hefði verið Íslendingur sem hefði hugsanlega farið með honum en það var allt annar maður,“ segir Tómas. Hann hringdi loks heim og lét vita að hann væri heill á húfi. En hann fór ekki strax heim.

Þurfti að hífa þá látnu upp af pallinum

Eftir slysið tók við skelfilegt björgunarstarf sem fólst í að fara á slysstað og hífa þá upp sem lágu látnir í pallinum. Tómas tók þátt í því og segir hann að það hafi verið mjög erfitt og var hann feginn því að vera veitt sáluhjálp þar sem hann dró lík af samstarfsfélögum sínum upp úr borpallinum. „Það voru tveir prestar þarna sem töluðu við mann á klukkutíma fresti,“ segir hann. „Þetta var mikið högg fyrir norskan olíuiðnað og samfélag og þetta situr í mér.“ 123 létust í slysinu, þar af einn Íslendingur. Alls komust 89 af eftir að hafa stokkið frá borði.

Tók á að leita í höfn á Íslandi með grátandi aðstandendur á bryggjunni

Það var Kanasjónvarpið, sem Tómas horfði á sem ungur maður, sem opnaði augu hans fyrir köfun og töfrunum við hana. Sextán ára byrjaði hann að reyna fyrir sér sem kafari og tók þátt í björgunarstarfi og leit að fólki. „Það komu upp leitir sem voru íþyngjandi fyrir samfélagið suður með sjó. Geirfinnur og þetta,“ segir hann alvarlegur. Kafararnir þurftu að vera klárir í leit sama hvernig viðraði og aðstæður voru oft mjög erfiðar. „Það er ekkert eins ömurlegt og að vera að leita í höfn að vetri til að einhverjum látnum. Hugsanlega með aðstandendur uppi á bryggju grátandi og allt í klessu,“ segir hann. „Það tók á, mjög mikið.“

Best að hlusta á nemendur segja frá fyrstu reynslunni af köfun

Tómas flutti til Belís þar sem hann kafaði við mun auðveldari aðstæður. Þar starfaði sem köfunarkennari í eitt ár í stuttbuxum og ermalausum bol eins og hann lýsir því sjálfur. „Það er upplifun að fá að kenna fólki að kafa til að upplifa þessa litadýrð og þennan stórfenglega heim undir yfirborðinu,“ segir hann. „Mesta kikkið sem kennari er að hlusta á nemendurna tala um fyrsta tímann í sjónum. Þú færð tár í augun því sjóndeildarhringurinn stækkaði um fleiri hundruð gráður. Það fannst mér alltaf langskemmtilegasta augnablikið.“

Hann hélt aftur heim í kuldann þegar hann fékk þær fregnir að vinur hans í slökkviliðinu, þar sem hann hafði starfað um hríð, væri látinn. „Ég hringdi í slökkviliðsstjórann og var að votta samúð mína þegar hann sagði: Það er alltaf laust plássið þitt hérna, mundu það,“ segir Tómas. Hann var á ströndinni að tala í 25 senta síma þegar hann tók ákvörðun um að snúa heim og stofna köfunarfyrirtæki á Íslandi.

Tókst ekki að endurlífga nemandann

Tómas og félagi hans stofnuðu Sportköfunarfélag Íslands. „Við setjum skólann af stað og það fyllast öll námskeið og það er mjög mikið að gera við að kenna köfun. Við erum á fleygiferð lengi,“ segir Tómas.

Í nóvember 1998 varð Tómas fyrir gífurlegu áfalli í köfunarskólanum þegar nemandi hans í skelfilegu slysi í kennslu hjá honum. Tómas reyndi allt sem hann gat til að endurlífga hann en það tókst ekki. „Þetta var nánast rothögg. Ég vissi ekki hvað hefði komið fyrir,“ rifjar hann upp. Þeir höfðu þá farið í gegnum nokkrar kafanir og allt lofaði góðu til að byrja með. „Svo vorum við komin upp á yfirborðið í einni köfuninni og honum svelgist á og fær panik. Ég náði ekki að ráða við það.“

Eftir þetta hörmulega banaslys hét Tómas sér því að á meðan hann lifði myndi hann berjast fyrir hafið í nafni unga mannsins sem lést. „Það var það sem hann hlakkaði til að fá að taka þátt í, að fá að gerast hermaður hafsins. Svo ég hef tileinkað störf mín við þessa umhverfisvernd minningu Rúnars sem dó allt of snemma.“

Bað almættið um hjálp því hann var algjörlega týndur

Slysið hafði mikil áhrif á Tómas sem segir að það hafi verið eins og hann týndi sjálfum sér. „Mér fannst eins og ég hefði enga stjórn á því sem ég gerði. Mér fannst sem ég væri bara leiddur áfram,“ segir hann. Hann tók til bragðs að leigja sér sumarbústað á Flúðum og verja þar tíma með sjálfum sér til að reyna að öðlast sálarró en það gekk illa til að byrja með. Hann fór í göngutúra og eftir einn slíkan lagði hann sig og fannst þá sem einhvers konar andi vitjaði sín og segði sér að tala við æðri mátt.

Tómas settist upp í bílinn sinn þegar hann vaknaði og tók að keyra stefnulaust um. „Ég þvældist inn á eitthvað tún og þurfti að snúa við en loksins rataði ég upp í Skálholt þar sem ég settist á fremsta bekk og bað almættið að hjálpa mér því ég var algjörlega týndur.“ Þegar hann settist upp í bílinn aftur tók hann eftir því að kílómetramælirinn sýndi 220.357 sem eru tölurnar í fæðingardegi hans. „Ég hugsaði með mér: Ég ætla að fara eftir því sem mér verður leiðbeint með.“

Liðsmenn hafsins

Fyrir aldarfjórðungi stofnaði Tómas umhverfissamtökin Bláa herinn. Þau vinna að hreinsun strandlengjunnar og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt á þeim vettvangi, m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og fleira. Hann segir að ímynd Íslands sem hins hreina og fagra lands sé í höndum fólksins og það sé á okkar ábyrgð að sjá til þess að viðhalda þeim hreinleika. Mikil vitundarvakning hafi orðið í umhverfismálum og víða megi sjá góðan árangur af hreinsunarstarfi.

Nafnið Blái herinn er komið frá nemendum Tómasar sem hjálpuðu honum að tína rusl. Þau sögðust vera hermenn hafsins í Bláa hernum. „Þá hugsaði ég að þeir sem vilja taka þátt í því þegar ég blæs í mína herlúðra og vilja taka til í sjónum, þeir eru liðsmenn eða varaliðar hafsins. Þannig hefur þetta gengið til dagsins í dag.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Tómas J. Knútsson í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér má hlýða á viðtalið í heild sinni.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Fékk COVID og hélt hann væri í haldi hryðjuverkamanna

Menningarefni

Varð ráðskona Vigdísar Finnbogadóttur 17 ára gömul