Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki nóg að þétta byggð

Mynd:  / 
Íbúðauppbygging á þéttingarsvæðum dugar ekki til að fullnægja eftirspurn eftir íbúðum heldur þarf einnig að taka ný svæði til byggingar, segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Reykjavíkurborg kynnti fyrir helgi íbúðauppbyggingu sem kallast Græna planið, þar sem meðal annars er lögð áhersla á íbúðabyggð á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog þar sem eiga að rísa 7.500 íbúðir.

„En mér sýnist það gerast aftur sem gerðist fyrir nokkrum árum að menn voru með áætlanir sem gengu ekki alveg upp. Það er verið að gera ráð fyrir að byggja á þéttingarsvæðum nær eingöngu. Það þýðir að það þarf að fara með starfsemi annað og það tekur langan tíma,“ segir Eyþór. Hann segir að til dæmis hafi dregist á langinn að flytja starfsemi Björgunar, sem hafi því legið niðri, og nú sé stefnt að byggingu fjögur þúsund íbúða á flugvallarsvæðinu þó ekkert bendi til þess að flugvöllurinn sé að fara.

„En aðalatriðið er kannski þetta. Þegar er verið að byggja á þéttingarsvæðum nær eingöngu þá er kostnaðurinn meiri heldur en að fara á þau svæði sem eru lítið röskuð. Við höfum bent á Keldur og Örfirisey þar sem er miklu hagkvæmara og byggja og þar með lækka verð til fólksins,“ sagði Eyþór í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann sagði að það væri sjálfsagt að þétta byggð en slíkt yrði að gerast með raunhæfum hætti. Nú væri raunin sú að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu yxu hraðar en Reykjavík og sömuleiðis ýmis sveitarfélög á  Suðurlandi og Suðurnesjum. Það hefði því ekki orðið þétting heldur uppbyggingin farið annað. Hann sagði að meðan ekki væri gert ráð fyrir byggingum á Keldum, Örfirisey og víðar væri ljóst að skortur yrði á íbúðarhúsnæði í borginni.