Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Biskup biður presta að bjóða húsnæði til kennslu

02.11.2020 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur biðlað til kirkjusókna landsins um að bjóða fram húsnæði kirkjunnar til skólastjórnenda og nýta það til kennslu.

Þetta kemur fram í bréfi sem biskup sendi prestum, djáknum og sóknarnefndum landsins í gær, í kjölfar umræðu í Silfrinu á RÚV í gær. Þar sagði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, meðal annars að þörf væri fyrir aukið rými fyrir skólastarf í kjölfar hertra sóttvarnaaðgerða.

Í bréfi biskups kemur fram að nú þurfi að snúa bökum saman og sóknir kirkjunnar gætu lagt sitt af mörkum. Meðal þess er að bjóða safnaðarheimili kirkjunnar til kennslu.

Þá segir biskup að það sé mikilvægt að styrkja samvinnu kirkju og skóla, sem hafi um aldir unnið náið saman. Undanfarið hafi myndast gjá í samstarfinu en bæði hafi mikilvæg hlutverk að gegna í uppeldi komandi kynslóða.