Viðtal breska Vogue við tónlistarkonuna Beyoncé tæpir á mörgum atriðum í lífi hennar, en fyrst og fremst er farið yfir afrek og útgefið efni á árinu – hvort sem um ræðir Black is King sjónrænu plötuna sem Beyoncé sendi frá sér í sumar, eða nýja línu tískuvörumerkis hennar Ivy Park.
Spurð um áhrif COVID-19 á líf sitt segir Beyoncé að hún hafi fyrst og fremst ákveðið að taka því rólega með fjölskyldunni. Þó hefur stór hluti tekna hennar runnið í baráttuna gegn heimsfaraldrinum en allur ágóði lagsins Savage sem hún gaf út með Megan Thee Stallion rann til þeirra sem veikst hafa.
Ég vann með kirkjunni í Houston Texas, móður minni og Jack Dorsey [forstjóra Twitter] við að gera skimun aðgengilega fyrir íbúa Houston, sérstaklega þá sem búa á fjárhagslega ótryggum svæðum, sem höfðu líkast til engan aðgang að skimun á þeim tímapunkti. Ég vann með sjúkrahúsi í Houston og styrkti þá um aðföng og hvað eina sem þau þurftu til að hjúkra hinum veiku.
segir Beyoncé meðal annars í viðtalinu.
Viðtali Vogue við tónlistarkonuna fylgir glæsilegur tískuþáttur en fremstu hönnuðir heims hönnuðu sérstaklega flíkur á Beyoncé við tækifærið. Meðfylgjandi eru nokkrar þeirra mynda sem birst hafa úr tímaritinu á samfélagsmiðlinum Instagram undanfarna daga: