Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bergfylla hrundi úr bjarginu í skjálftanum

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Stór bergfylla hrundi í sjó fram á allt að tíu metra kafla úr Krýsuvíkurbergi í jarðskjálftanum 20. október. Sprungur og önnur ummerki sjást þar og víðar á Reykjanesskaga.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Sprunga á brún Krýsuvíkurbergs.

Það er enn hrikalegra en vanalega við Krýsuvíkurberg því sprungur hafa gliðnað við bjargbrúnina og nýjar bæst við. Mestu ummerkin sjást í berginu. Brúnn kafli í berginu er í rauninni stórt sár. 

„Það hefur hrunið þarna úr þar sem hefur verið eldri sprunga og þar sér maður hrun alveg niður í fjöru,“ segir Esther Hlíðar Jensen landmótunarfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hvað er sárið þarna stórt, hvað heldurðu að það hafi verið langt fram á brún þaðan?

„Það hefur verið einn til tveir metrar sem hefur hrunið niður. Þetta er um fimm, tíu metra langt sýnist mér, þannig að þetta er talsvert efni.“

Þúsundir tonna?

„Já, já.“

Langa og glænýja sprungu má sjá á bjargbrúninni. Búið er að strengja bráðabirgðasnæri svo fólk fari sér ekki að voða. 

„Það á eftir að opnast örugglega meira hérna af sprungum. Eftir skjálftann? Ekki endilega eftir skjálftann. Það er alltaf að hrynja úr bjarginu og skjálftinn bara jók á þá hreyfingu.“

Margt breyttist á yfirborðinu í jarðskjálftanum. Sprungur í mosa má til dæmis sjá víða á Reykjanesskaga. Göngufólk slapp ómeitt af Keili í skjálftanum. Þar hrundi úr öllum vörðum á gönguleiðinni og víða hrundi grjót út í kantinn á afleitum akveginum þangað. 

„Við sjáum bæði á göngustígnum sprungur og svo sjáum við grjóthrun úr Keili sem eru talsvert stór björg sem hafa hrunið.“

Lítil en löng sprunga sker göngustíginn að fjallinu og liggur hún um hraunjaðarinn. 

Er ekki í lagi að vera á göngu þarna því sprungurnar eru ekki það stórar?

„Það er allt í lagi ef maður er í gönguferð, maður sér bara sprungurnar, þær eru ekkert það stórar? Já, nei, nei, þetta eru bara mjög litlar, maður sér bara nokkra sentimetra á yfirborðinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Esther Hlíðar Jensen.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV