Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill greina kæfisvefn fyrr með aðstoð gervigreindar

Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Reykjavík
Erna Sif Arnardóttir lektor við Háskólann í Reykjavík segir heilsufarslegar afleiðingar kæfisvefns geta verið mjög alvarlegar. Hún var einn gesta Baldvins Þórs Bergsonar í Silfrinu í morgun.

Meðal helstu áhættuþátta nefndi Erna Sif aukna hættu á blóðtappa, heilablóðfalli, minnisskerðingu og vitrænni skerðingu. Hún sagði að auk þess aukist hætta á umferðarslysum og öðrum óhöppum.

Mjög dragi úr framleiðni því fólk sem glími við kæfisvefn sé iðulega mjög þreytt. Kæfisvefn hafi áhrif á öll kerfi líkamans.

Erna leiðir þverfaglegt og alþjóðlegt þróunarverkefni sem kallað er Svefnbyltingin. Verkefnið hlaut nýverið tveggja og hálfs milljarðs styrk úr Horizon 2020, rammaáætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Auk kæfisvefns stendur til að rannsaka svefnháðar öndunartruflanir, miklar hrotur og annað af því tagi. Í máli Ernu Sifjar kom fram að um milljarður glími við kæfisvefn á heimsvísu en greiningaraðferðir séu orðnar gamaldags.

Þær séu frá því áttunda áratugnum þegar allt var unnið á pappír. „Það varð til ein 800 blaðsíðna símaskrá eftir hverja nótt fyrir hvern sjúkling.“ Hún segir að hingað til hafi ekki verið neitt nýjustu aðferðum til greiningar á borð við gervigreind við rannsókn á kæfisvefni.

Erna segir stefnt að því byrja fyrr til að auka forvarnir með því að gera persónulegar greiningar sem spái fyrir um áhættu. Hingað til hafi fólk verið komið á sextugs- og sjötugsaldur þegar til greiningar hafi komið og tekið að glíma við afleiðingar kæfisvefns.

Meðal þeirra eru háþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar, yfirþyngd og þar af leiðandi slæm hné. Í kæfisvefni hættir fólk að anda allt að tvær mínútur sem séu mikil átök fyrir líkamann og geti auk framangreinds ýtt undir vélindabakflæði og astma.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV