Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vill færri og stærri sveitarfélög svo fé nýtist betur

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
„Til að takast á við áskoranir, ekki bara dagsins í dag, heldur framtíðarinnar verður að stækka sveitarfélögin og nýta skattpeninga fólksins,“ segir Jens Garðar Helgason fyrrverandi formaður bæjarráðs í Fjarðarbyggð. Hann var gestur Baldvins Þórs Bergssonar í Silfrinu í morgun.

Jens bendir á að sveitarfélögum hefur fækkað um hundrað á undanförnum aldarfjórðungi og að hugmyndir að sameiningum hafi komið innan frá. Hann segir hlutverk sveitarstjórnarfólks að fara vel með skattfé og nýta það sem best í þágu íbúanna. Víða sé hægt að skera niður án þess að skerða þjónustu við þá. Þar á meðal í yfirstjórnum sveitarfélaga.

Jens segir aðspurður um óánægju með þjónustu sem komið hefur upp hjá íbúum fjarlægari hluta sameinaðra sveitarfélaga að nú orðið skipti minna máli hvar stjórnsýslan sé til húsa.

Það væri orðið harla óalgengt að íbúar heimsæktu bæjarskrifstofur í dag. Allt sé meira og minna gert á netinu en kveðst þó skilja að staðsetning þeirra gæti verið viðkvæmt mál.

Þjónustan skipti mestu máli og viðkvæmustu málaflokkarnir væru skólarnir og nemendur þeirra. Nauðsynlegt væri að auka samvinnu og samlegð þeirra í milli til að efla félagslega þætti gagnvart börnunum.

Kort sem Jens Garðar Helgason í Fjarðarbyggð gerði. Möguleikar á 12 sveitarfélögum í landinu.
 Mynd: Jens Garðar Helgason

Jens skrifaði færslu á Facebook fyrir nokkru þar sem hann sýndi myndrænt hvernig hægt væri að hafa tólf sveitarfélög í landinu. Hann sýndi fram á að sparnaður við að fækka sveitarstjórum úr 72 í 12 væri 1,5 milljarðar á ári miðað við að hver og einn þeirra hefði 1,5 milljónir í mánaðarlaun.  

Auk þess myndu væntingar komandi kynslóða aukast til þjónustu, afþreyingar og gæða heilbrigðis- og menntamála. Því yrði að stækka sveitarfélögin svo hægt væri að nýta skattpeninga fólks betur.