Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Víða hálka, krapi og snjóþekja

01.11.2020 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Á höfuðborgarsvæðinu og Suður- og Suðvesturlandi er víða hálka á vegum, en krapi og snjóþekja á fjallvegum á Norðaustur- og Austurlandi.

Talsverð hálka var á götum höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélaga í morgunsárið.  Á vef vegagerðarinnar má sjá að hálka er á þjóðvegi eitt frá norðurmunna Hvalfjarðarganga að Borgarnesi, og svo aftur á Holtavörðuheiðinni - og hálkublettir þar á milli. Einnig er hált á Snæfellsnesvegi á Mýrum.

Hálka er á Mosfellsheiði og Þingvallavegi, líka á Suðurlandsvegi allt frá Reykjavík til Hveragerðis og svo aftur frá Selfossi vel austur fyrir Hvolsvöll, og víða í uppsveitum Suðurlands.

Á Hólasandi, Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Jökuldalnum er krapi eða snjóþekja á vegum, og það á líka við um Fjarðarheiði og Fagradal.  

Á Vestfjörðum er hálka á veginum um Mikladal og Hálfdán, og líka á Vestfjarðarvegi um Dynjandisheiði. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV