Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tveir létust af völdum COVID-19 á síðasta sólarhringnum

01.11.2020 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Mohammad reza Fathian - Pexels
Tveir sjúklingar á níræðisaldri hafa látist á Landspítalanum á þessum sólarhring af völdum COVID-19. Alls greindust 24 með veiruna í gær og sjö þeirra voru ekki í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir mikilvægt að túlka daglegar sveiflur í fjölda smita með varkárni.

Kórónuveirufaraldurinn hefur dregið fimmtán til dauða hér á landi, þar af tvo síðastliðinn sólarhringinn. Þórólfur segist ekki vita hvort sjúklingarnir tveir sem létust á síðasta sólarhrignum hafi smitast á Landakoti.

Alls liggja nú 67 á Landspítalanum með COVID-19. Tveir eru á gjörgæslu, báðir í öndunarvél.

Þurfum að túlka tölurnar með varkárni

Talsvert færri sýni voru tekin í gær en síðustu daga, eins og alla jafna um helgar. 959 voru tekin í gær, en til samanburðar voru þau 1.752 á föstudag. 

Þórólfur minnir á að því megi ekki oftúlka fjölda smita. „Já, ég held að maður eigi ekki að túlka þetta of sterkt því það voru töluvert færri sýni tekin í gær. Það getur skýrt þetta og við höfum alltaf túlkað svona daglegar sveiflur með varkárni. Ég held við þurfum að gera það, við þurfum að sjá hvað gerist næstu dagana,“ segir hann. 

 

Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að lækka og er nú 202,3.