Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stjórn SÁÁ ákveður að slíta samstarfi um Íslandsspil

01.11.2020 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Stjórn SÁÁ hefur ákveðið að hætta þátttöku í rekstri spilakassa. Þannig verða tengsl rofin við Íslandsspil, sameignarfélagi SÁÁ ,Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um rekstur kassanna.

Einar Hermannsson formaður SÁÁ staðfestir í samtali við fréttastofu að undirbúningur sé hafinn að slitum samstarfsins. Hann segir það hafa verið eitt þess sem hæst bar í við stjórnarkjör í samtökunum í vor.

Hann segir að einróma bókun þessa efnis hafi verið gerð á níu manna framkvæmdastjórnarfundi 21. október síðastliðinn en í kjölfarið þurfi 48 manna stjórn að samþykkja hana. Hann býst fastlega við að einhugur verði þar um að slíta samstarfinu.

Einar álítur að breyta þurfi reglugerð um rekstur Íslandsspila því að leyfi til hans sé veitt félögunum þremur í sameiningu. Hlutur SÁÁ í Íslandspilum er 9% og Einar segir fullan skilning á ákvörðuninni hjá forvígisfólki hinna samtakanna tveggja.

Hann segir að honum og öðru stjórnarfólki þyki ekki siðlegt að taka þátt í rekstri af þessu tagi, að fólkið sem noti spilakassanna geti jafnframt verið skjólstæðingar SÁÁ.

Ýmsar nýjar leiðir séu til skoðunar varðandi fjármögnun en ekkert sé fast í hendi enn. Einar Hermannson segist búast við að almenningur reynist ánægður með þessa ákvörðun en finna þurfi leiðir til að brúa bilið. SÁÁ muni ekki fá neitt í sinn hlut frá Rauða krossinum og Landsbjörgu við slit samstarfsins.