Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ráðherra kynnir sóttvarnaaðgerðir á öllum skólastigum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðuneytið birti í kvöld nýja reglugerð um takmarkanir á skólastarfi á öllum skólastigum. Reglugerðin tekur gildi þriðjudaginn 3. nóvember og gildir um allt skólastarf, starf á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, og íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna.

Tveggja metra reglan í hávegum en gríma að öðrum kosti

Í öllum skólum gildir tveggja metra reglan um kennara og starfsfólk, en þar sem lágmarksfjarlægð verður ekki komið við er starfsfólki skylt að bera andlitsgrímur. Hámarksfjöldi fullorðinna í hverju rými eru 10. 

Hámark 50 börn í sama rými og foreldrar haldi sig fjarri

Nálægðartakmörk gilda ekki um börn á leikskólaaldri, en fjöldi barna í hverju sóttvarnarými skal að hámarki vera 50. Foreldrar barna eiga ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri er óheimilt meðan reglugerðin er í gildi. 

Nemendur í 1.-4. bekk eru undanþegnir tveggja metra reglu og grímuskyldu. Hámarksfjöldi þeirra í hverju sóttvarnarými er 50.

25 barna hámark í 5. - 10. bekk

Nemendur í 5.-10. bekk þurfa að fylgja tveggja metra reglu, en ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu. Að hámarki mega 25 nemendur í 5.-10. bekk vera í hverju sóttvarnarými.

Ekki fleiri en 10 í sama rými í framhalds- tónlistar- og háskólum

Kennsla í framhaldsskólum, tónlistarskólum og háskólum er heimil og er meginreglan sú að einungis tíu mega vera í sama rými. Virða skal tveggja metra fjarlægðarmörk en nota andlitsgrímu, sé þess ekki kostur.

Takmarka skal utanaðkomandi heimsóknir í skólabyggingar en halda má þýðingarmikil próf í vel loftræstum rýmum fyrir allt að þrjátíu nemendur. Þá miðast leyfilegur hámarksfjöldi í áföngum á fyrsta námsári í framhaldsskóla við 25. 

Hægt er að kynna sér reglurnar betur á vef stjórnarráðsins með því að smellla á þennan hlekk. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV