Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ómældur ávinningur af forvörnum í heilbrigðikerfinu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tryggvi Þorgeirsson læknir og forstjóri Sidekickhealth segir ávinning af fyrirbyggjandi aðgerðum innan heilbrigðiskerfisins vera ómældan. Hann var gestur í Silfrinu í morgun ásamt Ernu Sif Arnardóttur lektor við Háskólann í Reykjavík.

Þau voru á einu máli um að verja þyrfti meira fé í forvarnir en nú er gert en innan heilbrigðiskerfisins sé alltaf verið að slökkva elda. Það sé kostnaðarsamt en að þeirra sögn er nú 2-3% af útgjöldum heilbrigðiskerfisins varið til forvarna en um 80% fari í að fást við langvinna lífstílstengda sjúkdóma.

Jafnhátt hlutfall dauðsfalla á Vesturlöndum komi til vegna slíkra sjúkdóma en hægt sé að nýta heilbrigðisþjónustuna betur með því að grípa tímanlega inn í. Helstu áhættuþættir séu ofþyngd og hreyfingarleysi en rauð flögg fari ekki alltaf á loft fyrr en fólk sé komið í bráðaástand, þótt að baki sé löng saga sem hefði verið hægt að stöðva mikið fyrr.

Þau Tryggvi og Erna segja þetta vandamál um allan heim því ávinningur af forvörnum sjáist ekki fyrr en eftir tíu til tuttugu ár. Fyrirtæki Tryggva, Sidekickhealth, hefur unnið að þróun meðferðir til að bæta heilsu og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma.

Það er gert með því að nýta tæknina til að grípa inn í og miðla upplýsingum til sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Bæði er það gert með fyrsta stigs forvörnum þar sem gripið er inn í hjá fólki sem er í áhættu að fá sjúkdóma á borð við sykursýki.

Að sögn Tryggva sé með því mögulegt að minnka líkurnar á að fá sjúkdóma af því tagi um allt að 60% en tugir þúsunda Íslendinga eru með forstig sykursýki. Í annars stigs forvörnum er tæknin nýtt til að fylgjast með einkennum fólks með langvarandi sjúkdóma og gripið inn í ef eitthvað virðist vera að fara úrskeiðis.