Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Minnst fjögur látin í fárviðri á Filippseyjum

01.11.2020 - 06:50
This Saturday, Oct. 31, 2020, satellite image released by NASA Worldview, Earth Observing System Data and Information System (EOSDIS) shows a typhoon locally known as Goni moving around the Philippines. The super typhoon slammed into the eastern Philippines with “catastrophic violent winds” early Sunday and about a million people have been evacuated in its projected path, including in the capital where the main international airport has been ordered closed, officials said. (NASA via AP)
 Mynd: AP
Fellibylurinn Goni, sem nú hamast á sunnanverðum Filippseyjum, hefur kostað minnst fjögur mannslíf til þessa. Yfirvöld vara við „skelfilegum aðstæðum" á hamfarasvæðinu, sem hundruð þúsunda hafa neyðst til að flýja í aðdraganda ofsaveðursins.

 

Vindhviður upp í 86 metra á sekúndu

Goni er fimmta stigs fellibylur og sá öflugasti sem geisað hefur í heiminum það sem af er þessu ári. Meðalvindhraði hefur náð allt að 63 metrum á sekúndu og farið upp í 86 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Þök hafa þegar feykst af húsum í fárviðrinu, tré rifnað upp með rótum og skyndiflóð sópað burtu brúm og húsum, þar sem steypiregn fylgir veðurofsanum.

Eilítið hefur sljákkað í storminum eftir því sem hann hefur fikrað sig norður eftir Luzoneyju og nær höfuðborginni Manila. Veðurstofan varar engu að síður enn við „fárviðri með ofsaroki og afar mikilli og jafnvel fossandi rigningu" hvar sem Goni fer yfir.

Fjögur látin og  þak fokin af neyðarskýlum

Minnst fjórar manneskjur hafa þegar týnt lífinu í hamförunum, þar af eitt fimm ára barn. Tvö hinna látnu drukknuðu, eitt þeirra hvarf í aurskriðu en hið fjórða varð undir tré sem fauk á hliðina.

Fólk sem flýði þorp við ströndina að áeggjan yfirvalda átti fótum fjör að launa þegar stormurinn fletti þakinu af tveimur neyðarskýlum. Fólkið hefst nú við á jarðhæð neyðarskýlanna ásamt þeim sem þar voru fyrir, sem gerir það enn erfiðara en ella að sinna sóttvörnum sem skyldi.

COVID-19 hefur torveldað aðgerðir viðbragðsaðila, því gæta þarf að nálægðarmörkum og sóttvörnum eins og kostur er. Nær 380.000 hafa greinst með COVID-19 á Filippseyjum og yfir 7.100 dáið úr sjúkdómnum.