Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Georgíski draumurinn með gott forskot í þingkosningunum

01.11.2020 - 06:27
epa08789222 Leader of ruling party Georgian Dream Bidzina Ivanishvili celebrates exit poll results during rally after end of parliamentary elections, in Tbilisi, Georgia, 31 October 2020.  EPA-EFE/ZURAB KURTSIKIDZE
Bidzina Ivanishvili, ríkasti maður Georgíu og leiðtogi stjórnarflokksins Georgíski draumurinn, fagnar sigri í þingkosningunum eftir að fyrstu tölur voru birtar í gærkvöld Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnarflokkurinn í Georgíu leiðir nokkuð örugglega í þingkosningunum sem haldnar voru þar í landi í gær. Þegar búið er að telja tæp 60 prósent akvæða hefur flokkurinn, Georgíski draumurinn, fengið 49,3 prósent atkvæða, en stjórnarandstöðuflokkar, með Sameinuðu þjóðarfylkinguna í fararbroddi, 44,5 prósent. Leiðtogi Georgíska draumsins fagnar en forysta stjórnarandstöðunnar véfengir tölur kjörstjórnar og boðar mótmæli.

Þótt flest bendi til þess að Georgíski draumurinn fái hreinan meirihluta á 150 manna þingi Georgíu er það ekki fullvíst enn. Verði sú ekki raunin kemur upp áhugaverð staða, þar sem allir 30 stjórnarandstöðuflokkarnir sem buðu fram í kosningunum hétu því að vinna ekki flokknum eftir kosningar.

Formaðurinn sagður stjórna á bak við tjöldin

Formaður og stofnandi Georgíska draumsins, milljarðamæringurinn Bidzina Ivanishvili, var þó sigurreifur í nótt og sagðist þess fullviss að flokkurinn yrði áfram við stjórnvölinn. Sjálfur hefur hann ekki gegnt opinberri stöðu í stjórnkerfinu síðan hann sagði af sér sem forsætisráðherra 2013, en stjórnmálaskýrendur segja hann stjórna flestu á bak við tjöldin. Þessu neita bæði hann, forsætisráðherrann Giorgi Gakharia og aðrir og helstu ráðamenn flokksins, sem hefur verið við völd síðustu tvö kjörtímabil. 

Stjórnarandstaðan hvetur til mótmæla

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar véfengja tölur kjörstjórnar og segja þær ekki endurspegla vilja þjóðarinnar. Nika Melia, framámaður í Sameinuðu þjóðfylkingunni, segir flokkinn ekki viðurkenna úrslitin og hvetur fólk til að mæta á aðalbreiðgötu höfuðborgarinnar Tíblísi síðdegis í dag til að mótmæla. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV