Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Forseti færir ástvinum hinna látnu samúðarkveðjur

Guðni Th. í viðtali við Jóhönnu Vigdísi eftir innsetningarathöfn 1. ágúst 2020.
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sendir aðstandendum þeirra sem látist hafa af völdum COVID-19 samúðarkveðjur á Facebook-síðu sinni.

Alls hafa fimmtán látist af völdum sjúkdómsins hér á landi en tveir létust á Landspítalanum síðasta sólarhring. 

„Nú við upphaf nýrrar viku berast okkur þær sorgarfregnir að í nótt létust tveir hér á landi af völdum Covid-19. Þá hafi fimm dáið í þessari þriðju bylgju faraldursins og samtals 15 frá því að farsóttarinnar varð vart hér. Ég sendi ástvinum samúðarkveðjur,“  segir í kveðju Guðna. 

Forsetinn hvetur fólk jafnframt til að kynna sér nýjar reglur um fjöldatakmarkanir sem ætlað sé að tryggja að heilbrigðiskerfið ráði við að sinna þeim sem þurfi á bráðnauðsynlegri þjónustu og lækningum að halda. Það eigi við um þau sem veikist af veirunni og þau sem glími við önnur mein. 

Harmar tíðindi af þeim sem ekki taki vandann alvarlega 

Guðni kveðst finna einhug í samfélaginu um að vilja ekki standa frammi fyrir þeirri skelfilegu raun að þurfa að velja hverjir komist á sjúkrahús og hverjir ekki. 

Forseti gerir hópsmitið sem kom upp á Landakoti í vikunni að umtalsefni og kveðst vonast til að slíkt áfall endurtaki sig ekki. Jafnframt harmar hann tíðindi af þeim sem ekki taki veiruvandann alvarlega og láti skammtímahagsmuni ráða uns í óefni sé komið. 

„Við getum gert þetta saman og næstu vikurnar verðum við að gera okkar allra besta í þessari baráttu. Ef við sinnum öll okkar eigin sóttvörnum, verðum að liði frekar en að auka á vandann, er raunsæ von til þess að við náum að halda veirunni svo mjög í skefjum að samfélagið færist nær venjulegu horfi fyrir jól,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV