Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ein dýrasta plata Íslands tekin upp á sólarhring

Mynd: Aðsend / Aðsend

Ein dýrasta plata Íslands tekin upp á sólarhring

01.11.2020 - 13:00

Höfundar

Axel P. J. Einarsson lést 5. september en hann kemur víða við í tónlistarsögu Íslands. Eitt merkasta framlag hans var rokkhljómsveitin Icecross, sem vakti litla lukku á Íslandi á sínum tíma en er í dag mikið költ í heimi þungarokksins, og talin hafa verið langt á undan sínum samtíma.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Axel P. J. Einarsson var í ýmsum hljómsveitum, rak hljóðver og plötuútgáfu og samdi meðal annars lagið Hjálpum þeim ásamt Jóhanni G. Jóhannssyni. Hann var í Icecross ásamt Ásgeiri Óskarssyni á trommum og Ómari Óskarssyni á bassa. Þó hljómsveitin hafi aðeins starfað í örfáa mánuði í upphafi áttunda áratugarins er hún fyrir löngu orðin eins konar költ í íslenskri rokksögu og á heimsvísu.

Mister Icecross, carried out from this world.

Posted by Icecross on Sunnudagur, 27. september 2020

 

Eina plata hljómsveitarinnar, sem aðeins var gefin út í þúsund eintökum, er nú ein verðmætasta plata Íslandssögunnar. Þannig er eitt slíkt eintak auglýst um þessar mundir á vefsíðunni Discogs á hundrað og fimmtíu þúsund krónur og sjóræningjaútgáfur af plötunni ganga kaupum og sölum vítt og breitt um heiminn. Það var reyndar í gegnum þessar ólöglegu útgáfu á plötu Icecross sem hljómsveitin var „uppgötvuð“ og sló í gegn hjá aðdáendum þungarokks víða um lönd. Icecross er af mörgum talin undanfari þungarokksins ásamt hljómsveitunum Black Sabbath og Pentagram.

Platan Icecross var tekin upp á sólarhring í Kaupmannahöfn undir yfirstjórn dönsku poppstjörnunnar Tommy Seebach en sveitin hafði farið út á vit ævintýranna þar sem hún átti lítið fylgi hér heima á Íslandi.

Ómar Óskarsson bassaleikari segir að Axel hafi verið pottinn og pönnuna á plötunni. „Axel var framkvæmdamaður og þetta hefði aldrei komið til annars. Það var hann sem lét þetta allt gerast, það var bara þannig. Hann var flottur,“ segir Ómar um gamla hljómsveitafélaga sinn. „Við vorum ákveðnir í því að þetta myndi bara vera band sem myndi fara sínar eigin leiðir. Við vorum ekkert að spila einhver koverlög eins og þá var nú lenskan. Það var eiginlega ekkert annað til umræðu en að reyna bara að kópera einhver útlensk bönd sem best og þeir sem kóperuðu best voru bestir og mestir. En í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu áttum við ekki mikið fylgi. Það var frekar að við þóttum hálffurðulegir og hlægilegir, að vera að þessu.“

Eftir að hafa æft stíft um nokkurt skeið keypti Axel gamlan Dodge-hertrukk, sem sveitin gerði upp og ákváðu þeir að halda til Kaupmannahafnar með Gullfossi. „Svo vorum við svona að þefa af bænum og rúnta um á þessum svakalega trukk. Ég man nú að þegar við keyrðum um Kaupmannahöfn þá voru eldri menn sem gerðu honor, gerðu svona hermannakveðju þegar þeir sáu okkur. Þeir upplifðu bara stríðslokin aftur.“

Talið í og spilað

Hljómsveitin varð eins konar húshljómsveit klúbbsins Revolution, þar sem engir aðrir en Pete Towsnend og Keith Moon úr The Who komu eitt sinn að sjá þá spila. „Það voru alls konar áheyrendur sem komu. Einu sinni stóðu The Who allt í einu fyrir framan okkur í settinu. Þá höfðu þeir verið að spila í KB Hallen. Það voru alls konar gestir sem bar þarna að garði.“

Bandið varð þéttara og þéttara með tímanum og spiluðu á ýmsum skrítunum stöðum eins og Kristjaníu. „Við vorum náttúrulega bóhemar og hippar og allur pakkinn. Svo varð það úr að við ákváðum að reyna að gera plötu. Þessi plata var tekin upp á 27 eða 28 klukkutímum. Ég kalla það bara vel af sér vikið. Bandið var það þétt að þetta var voðalega lítið um að það væri verið að laga eitthvað til. Það var bara talið í og spilað.“

Hljómsveitarharkið í Kaupmannahöfn var þó ekki eingöngu tekið út með sældinni. „Þetta var ekkert líf í sús og dús, sko. Menn fóru svona að missa móðinn og vildu fara aftur heim. Við áttum sem sagt enga framtíð á Íslandi sem þessi hópur, þá leystist bandið upp eftir að koma til Íslands.“

Ekki mikill karakter að grenja yfir sjóræningjaútgáfu

Á seinni árum fóru að dúkka upp alls kyns sjóræningjaútgáfur af plötunni, sem Axel var ekki mjög hrifinn af, en Ómar segist ekki hafa kippt sér mikið upp við það. „Þetta kom okkur mjög á óvart. Þessi plata þótti nú hvorki fugl né fiskur í almennri umræðu hér á landi.“ Það hafi þess vegna komið þeim mjög á óvart þegar platan sást til sölu erlendis. „Einhver var að selja þetta hér á landi meira að segja. Axel þótti það nú ekki fínt því það var náttúrulega vitað að þetta væru sjóræningjaeintök.“ Bergsteinn lét sér það þó í léttu rúmi liggja. „Mín afstaða var alltaf sú að fyrst einhverjum þætti gaman að hlusta á þetta þá hefði ég gert eitthvað smá gagn. Ekki að ég væri að tapa einhverjum krónum í hvert skipti sem platan færi á fóninn. Það finnst mér ekki vera mikill karakter að fara að grenja yfir því. Mér finnst það miklu meira atriði að einhver hafi fengið að heyra þetta og hefði líkað vel.“

Að sögn Ómars var mörgum á Íslandi uppsigað við gítarhljóminn hjá Axel sem nú er látinn. „Því hann var með þetta mjög hart og skært. Við fengum athugasemdir út af því út í bæ. Það er það sem gerir plötuna að því sem hún er. Það var allt einhvern veginn svo ungt, allur kúlturinn var svo ungur og óharðnaður. Þessi rokkkúltur, tala nú ekki um þennan hard rokk kúltúr.“ Að lokum nefnir hann að þeir hafi ekki reynt að líkjast nokkrum örðum. „Við ákváðum bara að telja í og athuga hvað við gætum búið til saman. Svo var Geiri [trommuleikari, síðar í Stuðmönnum] í mótun á þessum tíma og hann kemur mjög vel frá þessari plötu. Mér finnst ég vera nú lakastur. En við eigum þetta og höfum lagt smá minnisvarða eftir okkur þarna, það er bara gaman.“

Þórður Ingi Jónsson ræddi við Ómar Óskarsson í Lestinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Gjöfult ár í útgáfu á sígildri tónlist

Tónlist

Stafræn afskræming á skandinavískum sársauka

Tónlist

Steinar í skáldskap og tónlist

Tónlist

Samdi Hjálpum þeim og eina verðmætustu plötu Íslands