Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Binda vonir við að kærunefndin taki málið upp aftur

Mynd með færslu
 Mynd: Bassirou Ndiaye
Lögmaður fjölskyldu frá Senegal sem hefur búið á Íslandi í næstum sjö ár hefur farið fram á það við kærunefnd útlendingamála að mál fjölskyldunnar verði tekið aftur upp. Landsréttur hefur staðfest úrskurð Útlendingastofnunar um að veita fjölskyldunni ekki alþjóðlega vernd á Íslandi. Fallist kærunefndin á endurupptöku má búast við að fjölskyldan fái dvalarleyfi. 

Stöð 2 fjallaði í liðinni viku um mál hjónanna Bassirou Ndiaye og Mahe Diouf og dætra þeirra, Mörtu sex ára og Maríu þriggja ára. Bassirou og Mahe hafa dvalið á Íslandi í næstum sjö ár og stúlkurnar eru báðar fæddar hér á landi. María er á leikskólanum Langholti og Marta í Vogaskóla. 

Réttur stúlknanna aldrei verið virtur í málsmeðferð

Í samtali við fréttastofu segir Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar, að í dómi Landsréttar séu aðstæður stúlknanna einskis virtar. Þær eigi líf sitt hér á Íslandi og þekki ekkert annað. Því væri fráleitt að vísa fjölskyldunni úr landi og ef til þess kæmi væri það barnaverndarmál. Aðalmálið sé auðvitað velferð stúlknanna.  

Á þeim tíma sem fjölskyldan hefur dvalið á Íslandi hafa hjónin freistað þess að sækja um atvinnleyfi, dvalarleyfi af mannúðarástæðum og að lokum alþjóðlega vernd. Hjónin fluttu til landsins árið 2013 og sóttu þá um venjulegt atvinnu- og dvalarleyfi. „Og það er auðvitað meira en að segja það fyrir fólk utan EES að fá slíkt,“ segir Elín. Þegar þeim var synjað um dvalarleyfi átti að senda þau úr landi en þá var Mahe kasólétt og brottvísuninni því frestað.  

Í kjölfarið sóttu þau um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2015, þá með lítið barn og Mahe mikið veik. Elín segir að vinnsla þeirrar umsóknar hafi tekið langan tíma og verið synjað í október árið 2016.  Þau hafi svo loks sótt um alþjóðlega vernd árið 2017 og umsókninni hafnað 11. janúar 2018.

Synjunin var kærð til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana í mars árið 2018. „Þá var sótt um frestun réttaráhrifa og frestunin veitt. Þá kærðum við málið til Héraðsdóms og þaðan fór það til Landsréttar sem kvað upp dóm og staðfesti úrskurðinn fyrir rúmri viku síðan. En það breytti engu þrátt fyrir að við hefðum haldið fram þessum aðstæðum og réttindum barnanna. Við vildum að það yrði tekið mið af aðstæðum barnanna eins og þær eru í dag,“ segir Elín. 

Stúlkurnar skráðar á utangarðsskrá 

Elín bendir á að það sé skylda að skrá börn sem eru fædd hér á landi í Þjóðskrá. Í Útlendingalögum sé kveðið á um að það megi ekki vísa börnum héðan sem eru fædd hér og skráð í Þjóðskrá. „Því var fundið upp á því að skrá börnin á utangarðsskrá og þá túlkar Útlendingastofnun lögin þannig að það megi vísa þeim úr landi,“ segir hún.  

Bassirou fékk bráðabirgðaatvinnuleyfi hér á landi sem hann þarf að endurnýja á sex mánaða fresti. Atvinnuleyfið er líka skráð á utangarðskennitölu. „Hann greiðir því öll gjöld og skatta eins og aðrir á íslenskum vinnumarkaði en fær engin réttindi,“ segir Elín.  

Lögin túlkuð á eins þröngan hátt og hugsast getur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ítrekað lagt áherslu á mikilvægi þess að hraða málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd til að tryggja að þeir fái úrlausn mála á sem skemmstum tíma. Taki meðferðin lengri tíma en 16 mánuði ber Útlendingastofnun að veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Elín segir að tíminn sem málið er fyrir dómstólum virðist ekki vera tekinn inn í málsmeðferðartímann. Lögin séu augljóslega túlkuð á eins þröngan hátt og hugsast getur.