Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Varasöm ísing á vegum á Suðvesturlandi og víðar

31.10.2020 - 23:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veðurfræðingur Vegagerðarinnar, Einar Sveinbjörnsson, sendi fréttastofu ábendingu um að hætta sé á hálku á landinu suðvestanverðu í nótt. Þar eru vegir blautir og nú þegar létt hefur til og hægviðri dottið á er hætt við að varasöm ísing myndist á flestum vegum á suðvesturhorninu og því rétt að aka enn varlegar en ella.

Hált er nú þegar á þjóðvegi eitt frá Hvalfjarðargöngum norður fyrir Bifröst, og eins á Snæfellsnesvegi á Mýrum.  Einnig er hálka á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði, samkvæmt vef Vegagerðarinnar, og hálkublettir á Mývatnsöræfum. 

Þá var mjög hált á fjallvegum beggja vegna Tálknafjarðar um miðnæturbil, jafnt á Hálfdáni sem Mikladal, að sögn vegfaranda sem hafði samband við fréttastofu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV