Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þúsundir flýja fimmta stigs fellibyl á Filippseyjum

31.10.2020 - 05:35
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Filippseyjar · Veður
epa08774428 Villagers wearing facemasks wade on floodwater in town of Macabebe, Pampanga province, Philippines, 26 October 2020. According to reports, thousands of villagers were placed in evacuation centers as Typhoon Molave barrelled through Southern Luzon island on 25 October 2020.  EPA-EFE/FRANCIS R. MALASIG PICTURES WERE TAKEN WITH A DRONE
 Mynd: epa
Þúsundum Filippseyinga hefur verið fyrirskipað að rýma heimili sín og forða sér í öruggt skjól áður en fellibylurinn Goni skellur á stærstu eyjunni, Luzon, á sunnudag. Goni er fimmta stigs fellibylur sem stefnir í að verða sá öflugasti sem gengið hefur yfir Filippseyjar síðan fellibylurinn Haiyan varð yfir 6.300 manns að bana þar í landi í nóvember 2013. Meðalvindhraðinn mælist nú næstum 60 metrar á sekúndu og tæplega 74 metrar á sekúndu í hviðum.

Rýmingar eru byrjaðar í þremur héruðum suður af höfuðborginni Manila. Á þriðja tug Filippseyinga fórust af völdum fellibylsins Molave, sem gekk yfir eyjarnar í liðinni viku á leið sinni til Víetnam. Flest dauðsföllin urðu í flóðum og aurskriðum, sem urðu vegna úrhellisrigninga í óveðrinu, á sömu slóðum og Goni mun að líkindum hamast á næstu daga.

Heimsfaraldur kórónaveiru eykur enn á vanda yfirvalda, þar sem brýnt þykir að tryggja nálægðarmörk í neyðarskýlum til að draga úr smithættu. Filippseyjar eru það land í Suðaustur-Asíu sem skráð hefur næst-flest COVID-19 smit og dauðsföll af völdum farsóttarinnar, á eftir Indónesíu.