Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þungunarrofsdómur klýfur pólsku þjóðina

31.10.2020 - 10:11
epa08786893 People take part in a protest against the tightening of the abortion law in Warsaw, Poland, 30 October 2020. Poland's Constitutional Tribunal on 22 October ruled that laws currently permitting abortion due to foetal defects are unconstitutional. Explaining its verdict, the court said that human life was of value in every development phase, and should therefore be protected by law.  EPA-EFE/Leszek Szymanski POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Fyrir rúmri viku síðan úrskurðaði stjórnarskrárdómstóll í Póllandi að það væri óheimilt að leyfa konum að gangast undir þungunarrof þó að fósturgallar séu fyrir hendi. Úrskurðurinn hefur vakið mikla reiði, í Póllandi og mun víðar. Honum hefur meðal annars verið mótmælt fyrir framan pólska sendiráðið hér á landi, en með þessari ákvörðun verður þungunarrof svo gott sem algjörlega óheimilt.

Fyrir úrskurðinn í síðustu viku voru þungunarrofslögin í Póllandi þegar með þeim ströngustu í Evrópu. Konur máttu aðeins gangast undir þungunarrof ef um var að ræða fósturgalla, sifjaspell eða nauðgun, eða að líf konunnar væri í hættu. Næstum allar löglegar aðgerðir þar sem þungunarrof var framkvæmt í fyrra voru einmitt vegna fósturgalla. Þannig er það flest ár, 98% alls þungunarrofs byggir á því ákvæði. Aðgerðirnar í fyrra voru ekki nema um eitt þúsund, í landi þar sem tæplega 40 milljónir manna búa.

Renata Kim, blaðamaður hjá Newsweek í Póllandi, segir talið að um 150 þúsund þungunarrof eigi sér þó stað á hverju ári. Mannréttindasamtök taka undir þetta mat, og telja líklegt 100 til 200 þúsund þungunarrof séu framkvæmd fyrir pólskar konur ár hvert, ýmist ólöglega eða í öðrum löndum.

Deilumál í mörg ár

Úrskurður stjórnarskrárdómstólsins var að undirlagi þingmanna Laga og réttlætis, stjórnarflokksins í Póllandi. Í langan tíma hefur verið reynt að fá lögunum um þungunarrof frá árinu 1993 hnekkt, en þau heimiluðu þungunarrof að uppfylltum þessum ströngu skilyrðum. Um það snérist þetta mál.

Stjórnarflokkurinn hefur haft það á stefnuskránni lengi að herða þessa löggjöf en það hefur reynst þeim erfitt þar til nú. Það var mótstaða við málið bæði í stjórnarandstöðunni og á meðal almennings. Fyrir fjórum árum síðan mótmæltu um 100 þúsund manns, mest konur, tilraunum til að herða lögin. Fyrr á þessu ári, í fyrstu bylgju kórónuveirunnar, kom málið til kasta þingsins. Þá var mótmælt kröftulega, jafnvel þótt samkomutakmarkanir væru í gildi.

Ekki meirihluti fyrir breytingunum

Þrátt fyrir að meirihluti Pólverja segist andvígur þungunarrofi gildir það ekki um þessi tilvik sem nú eru til umræðu, þar sem fósturgalli er fyrir hendi. Það hefur ekki verið neitt ákall um það í pólsku samfélagi að ganga svona langt. Þvert á móti hefur um langt skeið verið skýr meirihluti gegn því að gera þessar breytingar, að vega frekar að réttindum kvenna til þungunarrofs. Og það hefur verið staðfest í könnunum undanfarna daga.

Hópur þingmanna lengst til hægri tók sig saman og ákvað að óska eftir því að stjórnarskrárdómstóllinn skæri úr um málið. Andstæðingar segja að tímasetningin nú sé ekki tilviljun. Það sé verið að nýta ástandið í landinu og í heiminum til þess að koma málinu í gegn, og dómstóllinn notaður af stjórnmálamönnum til þess. Stjórnvöld hafa lýst yfir ánægju sinni með niðurstöðuna, og það hefur forsetinn Andrzej Duda líka gert, rétt eins og yfirmenn kaþólsku kirkjunnar í Póllandi, en kirkjan hefur mikil ítök.

Andstæðingar þungunarrofs eru almennt hæstánægðir, og segja margra ára baráttu loks hafa skilað sér. Kaja Godek, ein þeirra, ræddi við fjölmiðla eftir úrskurðinn og sagði meðal annars um væri að ræða jafnréttismál, ekki misréttismál. Nú væri ekki hægt að mismuna fóstrum á grundvelli fötlunar.

Dómstóllinn segir að lögin sem heimiluðu þungunarrof ef fósturgalli er fyrir hendi, stangist á við stjórnarskrána. Úrskurður dómstólsins er bindandi og endanlegur.

Þetta er ekki eini dómstóllinn sem pólsk stjórnvöld hafa skipt sér af undanfarin ár. Því fer fjarri. Margir hafa haft vaxandi áhyggjur af afskiptunum undanfarin ár. Fyrr á þessu ári voru samþykkt lög sem veita stjórnmálamönnum völd til að sekta og reka dómara úr starfi. Evrópusambandið hefur gagnrýnt þetta harðlega, og það hafa ýmsir fleiri gert, meðal annars öll helstu alþjóðlegu mannréttindasamtök heimsins. Dómstólarnir séu með þessu einfaldlega ekki lengur sjálfstæðir.

Fyrirlitlegt að neyða konur til að eiga börn sem deyja

Það er fyrirlitlegt að neyða konur til þess að ganga með börn, segja kvenréttindasamtök og einstaklingar sem hafa tjáð sig um málið. Sérstaklega þegar fyrirséð er að fóstur er með galla, að ekki sé talað um svo alvarlega galla að þau koma aldrei til með að lifa af. Mæðurnar þurfa þá að ganga í gegnum fulla meðgöngu og fæðingu, til þess eins að börnin þeirra deyi skömmu síðar.

Af þessum sökum m.a. hafa lögin sem nú eru sögð ólögmæt, verið varin á grundvelli banns Sameinuðu þjóðanna við pyntingum. Það sé pynting að láta konur ganga í gegnum þetta.

Bæði Amnesty og Mannréttindavaktin hafa fylgst með málinu og fordæmt úrskurðinn. Hann verði að setja í samhengi við endurteknar árásir pólskra stjórnvalda á réttindi kvenna og tilraunir til að hefta þau, og líka fyrrnefndar laga- og stefnubreytingar sem hafa grafið undan dómsvaldinu og réttarríkinu.

Verstu áhrifin á fátækar konur

Margir telja alveg ljóst að þessi nýi úrskurður komi til með að hafa verstu áhrifin á fátækar konur. Það séu þær sem komi til með að leita ólöglegra leiða til að rjúfa meðgöngu, hvort sem er með lyfjum sem þær fái eftir krókaleiðum og viti ekkert hvaðan komi, eða með gömlu leiðinni, þar sem áhöld eru notuð til þess að reyna að skaða fóstrið og rjúfa meðgönguna. Herðatré hafa komið þarna við sögu, og þau sjást víða á mótmælum sem tákn.

Konurnar sem hafa efni á því fara til útlanda.  Jafnvel áður en þessi úrskurður varð að veruleika voru lögin mjög ströng, eins og fyrr segir. Þá voru kröfurnar sem gerðar voru til kvenna sem vildu gangast undir þungunarrof vegna galla svo miklar að það gat tekið margar vikur að uppfylla þær. Læknisskoðanir af ýmsu tagi og annað sem tafði allt ferlið, oft þannig að það var orðið of seint að rjúfa þungunina. Þess vegna fóru konur sem höfðu tök á því úr landi.

Mótmælt á hverjum degi

Kórónuveirufaraldurinn geisar í Póllandi eins og annars staðar í heiminum, og ástandið þar í landi er slæmt. Tilfellunum hefur fjölgað ört í októbermánuði, ný fjöldamet slegin dag eftir dag bæði í tilfellum og dauðsföllum. 300 þúsund manns hafa smitast og tæplega fimm þúsund látist.  Allt Pólland er nú skilgreint sem rautt svæði. Samkomutakmarkanir eru miðaðar við örfáa einstaklinga, ekki fleiri en fimm mega koma saman, og það má ekki skipuleggja neins konar mótmæli.

Hvað sem því líður létu hafa mótmælendur ekki látið þessar takmarkanir á sig fá og hófu að mótmæla strax og úrskurðurinn lá ljós fyrir.

Meðal annars hefur verið mótmælt fyrir utan heimili Jaroslaws Kaczynski, leiðtoga Laga og réttlætis, í Varsjá. Víða annars staðar í Póllandi hefur fólk komið saman til að mótmæla, stöðva umferð og trufla samfélagið með ýmsum hætti. Mótmælt hefur verið á götum úti, við og í kirkjum og fyrir utan byggingar Laga og réttlætis. Og mótmælendur hafa haldið áfram á hverjum degi. Á miðvikudaginn var svo kvennaverkfall í Póllandi, sem fjölmargir virðast hafa tekið þátt í þó erfitt sé að sannreyna fjöldatölur.

Þetta er málið sem kveikir í fólki, segir Renata Kim, það sem fær fólk til að taka áhættuna, fara að heiman og hugsa ekki um kórónuveiruna. Hún segir að ungt fólk í Póllandi hafi fengið nóg af stjórnvöldum sem vilji að það hagi lífi sínu eftir hentisemi kaþólsku kirkjunnar og ríkisstjórnarinnar, og sé mjög mótfallið því að neyða eigi konur til að eiga börn sem eru haldin banvænum kvillum.

Kirkjan ekki með sömu tök á unga fólkinu

Kaþólska kirkjan er sannarlega ríkjandi afl í Póllandi. En kirkjan hefur ekki sömu tök á unga fólkinu, sem hefur verið mjög áberandi í mótmælum. Og það að mótmælin beinist gegn kirkjunni líka þykir sæta tíðindum.

Á miðvikudag hafði verið tilkynnt um 22 tilvik þar sem mótmælendur fóru inn í kirkjur og trufluðu messur. Fleiri tilvik voru um að slagorð hefðu verið krotuð á veggi. Innanríkisráðherrann sagði í kjölfarið að það yrði gripið til harðra aðgerða til þess að verja kirkjurnar. Hann tók þannig undir með leiðtoga Laga og réttlætis, Kaczynski, sem daginn áður hafði verið mjög harðorður og hvatt stuðningsmenn til þess að svara því sem hann segir árásir mótmælenda. Sérstaklega sagði hann að það þyrfti að verja kirkjur landsins, hvað sem það kostaði.

Hvað næst?

Renata segir Kaczynski hafa reynt að kynda undir óeiningu og skipta þjóðinni í fylkingar í fimm ár. Í hópa sem hatast, eru hræddir við og treysta ekki hvor öðrum. Aðspurð um framhaldið segir hún fólk óttaslegið eftir að Kaczynski hvatti stuðningsmenn sína til að mæta mótmælendunum. Fólk hafi skilið hann sem svo að hann vildi beinlínis átök.

Mótmælin hafa náð inn í þingið líka, og því meðal annars haldið fram að stjórnvöld séu beinlínis að kynda undir borgarastyrjöld. Á miðvikudagskvöld reyndi forseti landsins, Andrzej Duda, að lægja öldurnar. Hann sagðist leiður yfir ástandinu og sagðist skilja þær konur sem mótmæltu, þrátt fyrir allir þekktu hans skoðanir á málinu og hann væri mótfallinn þungunarrofi. Jafnvel þó að úrskurður stjórnarskrárdómstólsins sé endanlegur er ekkert útlit fyrir að málinu ljúki í bráð. Rétturinn til þungunarrofs er alls ekki eina málið sem veldur misklíð í pólsku samfélagi, þó það sé ein sýnilegasta birtingarmynd þess að þjóðin sé að einhverju leyti klofin.