Steingrímur kveður þingið eftir 37 ára setu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hyggst ekki gefa kost á sér við að leiða framboð hreyfingarinnar í alþingiskosningunum á næsta ári.

Steingrímur er núverandi forseti Alþingis, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður VG frá stofnun til ársins 2013. Steingrímur gaf þessa yfirlýsingu á fundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis á þriðja tímanum í dag.

Í fréttatilkynningu segir að hann kveðji sáttur og stoltur af árangri VG auk þess sem hann væri bjartsýnn á framtíð hreyfingarinnar í landsmálunum. Steingrímur sagði hana hafa verið til góðs fyrir samfélagið.

Steingrímur, sem er fæddur 1955, hefur setið á Alþingi frá árinu 1983 og hefur því lengsta þingreynslu allra þingmanna. Hann hefur setið sem þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra og síðar Norðausturkjördæmis og hefur verið í framboði í öllum kosningum frá 1978.

Steingrímur var einn stofnanda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs árið 1999 en fram að því sat hann á þingi fyrir Alþýðubandalagið og var formaður þingflokks þess um tíma.

Steingrímur hefur gengt embættum landbúnaðar- og samgönguráðherra, fjármála, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, efnahags og viðskiptaráðherra og atvinnuvega og nýsköpunarráðherra.