Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta

Mynd: Netflix / Netflix

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta

31.10.2020 - 13:00

Höfundar

Þegar bresku draugarnir birtast á skjánum og byrja að leika lausum hala í þáttunum Haunting of Bly Manor hætta þeir að vera óhuggulegir og verða í besta falli hlægilegir. Karaktersköpunin er góð en fléttan er langsótt og ber þess merki að aðeins of margir kokkar hafi troðið sér að í eldhúsinu. Úr varð sannkölluð djöflasýra sem bragðast ekki nógu vel.

Haunting of Bly Manor eru nýir Netflix-þættir eftir sama leikstjóra og Haunting of Hill House, Mike Flanagan, sem jafnframt er aðalhandritshöfundurinn. Margir urðu spenntir fyrir nýrri þáttaröð frá Netflix því þeirri fyrri tekst það sem mörgum sem reyna að skapa hrylling mistekst - að hræða áhorfandann án þess að óhugnaðurinn gangi of langt og verði kjánalegur. Allavega í fyrstu þáttum seríunnar.

Ofsóknir mannsins með hattinn eins og ferð í gyllta turninn í Tívolí

Sjálf upplifði ég nokkrar svefnlausar nætur eftir að horfa á Reimleikann í Hill House og vandi mig lengi á að kveikja á vasaljósi ef ég var ein á ferli í myrkri því ég óttaðist að maðurinn með hattinn sæti um mig. Ég naut þess að lifa í þeim ótta á sama hátt og maður nýtur lífhræðslunnar þegar maður er látinn gossa úr 60 metra hæð úr gyllta turninum í tívolíinu í Danmörku. Svo hræðilegt og svo freistandi að kaupa sér annan miða. Þannig voru þættirnir Haunting of Hill house, hræðilegir en freistandi að horfa á næsta þátt.

Óhugnaður hverfur þegar draugurinn birtist á skjánum

Flestir voru þó sammála um að þegar leið á seríuna og draugagangurinn ágerðist hefðu taugarnar róast töluvert. Þannig vill það oft vera þegar draugarnir eru ekki lengur bara hringl í skráargötum, dularfullur skuggi undir hurðarkarminum eða mublur að færast til að næturlagi heldur birtast í fullum skrúða og byrja trítilóðir að vera með meiningar. Þá hætta þeir að vera óhugnanlegir.

Auðvitað eru á þessu einhverjar undantekningar. Sumir draugar halda áfram að vera skelfilegir þó þeir fái að láta ljós sitt skína fyrir framan myndavélina. Þá má til dæmis nefna hina framliðnu í kvikmyndinni The Shining eftir Stanley Kubrick. Spennustigið lækkar ekkert þegar tvíburasysturnar birtast eða hvað þá skrímslakonan í baðkarinu, en þessa karaktera þekkja allir þeir sem hafa séð þá mynd og mér finnst nokkuð líklegt að þessar þrjár hafi ratað í martraðir margra.

Óumbeðin sögustund gömlu konunnar í brúðkaupinu

En það er útúrdúr. Haunting of Bly Manor er ekki beint framhald af Haunting of Hill House en er önnur þáttaröðin í reimleikaseríu sem væntanleg er frá framleiðendunum. Hill House byggist lauslega á samnefndri skáldsögu Shirley Jackson og fjallar um fjölskyldu sem þarf að gera upp erfiða og nokkuð óhuggulega fortíð með þeim draugum sem henni fylgir. Í Bly Manor byrjum við í sögustund í brúðkaupsundirbúningi daginn fyrir brúðkaupið sjálft. Brúðkaupið fer fram fer í gömlu húsi í afskekktri amerískri sveit í Kaliforníu þar sem eldri kona kemur sér fyrir á meðal vina og vandamanna brúðhjónanna og byrjar að segja lengstu sögu sem sögð hefur verið, sem einhver gæti litið á sem ákveðinn bjarnargreiða nóttina fyrir stóra daginn, en allir of kurteisir til að standa upp og fara að sofa. Gamla konan þegir ekki að því er virðist klukkutímum saman svo gestirnir og brúðhjónin sjálf sitja þolinmóð og hlýða á romsuna frá þeirri gömlu langt fram á morgun.

„Á meðan ég man, konan sem var hér á undan þér missti vitið“

Sagan segir frá amerískri ungri konu, Daníellu, og eftir að brúðkaupsgesturinn kynnir hana til sögunnar fylgjum við henni að mestu. Sú er auðvitað gullfalleg, hárprúð og geislandi kona sem þiggur starf sem barnapía munaðarlausra systkina sem búa á afskekktu bresku sveitasetri. Það verður fljótt ljóst að það er ákvörðun sem að minnsta kosti einhvern tíma hún mun sjá eftir. Til þess að gera áhorfandanum það ljóst að hún hefði aldrei átt að þiggja boðið er notað gamalt trix í handrita-handbókinni.

Í fyrrnefndri kvikmynd, The Shining, býðst rithöfundinum Jack að sjá um viðhald á afskekktu hóteli yfir vetrartímann, sem hljómar ágætlega fyrir þann sem hyggur á að eiga þar huggulega mánuði með fjölskyldunni í sveitakyrrðinni og skrifa. En honum er veittur ákveðinn fyrirvari sem áhorfandinn áttar sig strax á að lofar ekki góðu. Það vill nefnilega svo til að maðurinn sem var þarna á undan honum að sjá um hótelið yfir veturinn fékk innilokunarkennd, missti vitið og myrti alla fjölskylduna og svo sjálfan sig. „En það er nú líklega ekkert til að hafa áhyggjur af, hérna er lykillinn.“ Og auðvitað var sú óhuggulega fortíð ekki lengi að skríða upp á yfirborðið og Jack fyrr en varir sjálfur að munda exina.

Það er eins í Haunting of Bly Manor. Frændi barnanna sem býður Daniellu starfið tjáir henni, svona meðan hann man, að það vilji reyndar svo óheppilega til að konan sem áður gengdi starfinu hafi misst vitið við störf sín og drekkt sér í vatninu skammt hjá húsinu. „En það er nú ábyggilega ekkert til að hafa áhyggjur af er það nokkuð?“ Áhorfendur geta gert það upp við sig nokkuð fljótlega hversu slæmur fyrirboði þar er.

Breskar staðalímyndir amerískra framleiðenda

Sviðsmyndin er stórfengleg, sveitasetrið er nánst eins og höll og ljóst að börnin tvö lifa í allsnægtum nema fyrir þær sakir að foreldra þeirra nýtur ekki lengur við. Í húsinu eru líka auðvitað misóhuggulegir krókar, kimar og myrk skúmaskot og auðvitað er kjallari og þar er ógerningur að kveikja ljós. En enska sveitin í allri sinni náttúrufegurð blasir við hugfanginni amerískri ungsnót og rétt hjá er lítil tjörn sem börnin leika sér gjarnan hjá. Það verður fljótt ljóst að handritshöfundarnir ákveða að spara engar staðalímyndir um Englendinga svo það verður allt alveg yfirdrifið breskt. Til dæmis nota börnin mjög háfleygt orðfæri þegar þau koma hlaupandi niður hlíðina í blúndukjól og með axlabönd, þau hneigja sig fyrir nýju barnfóstrunni og nota óspart orðasambandið perfectly splendid sem er margendurtuggin í gegnum söguna og því oftar sem það er gert, því þrálátari verður löngun áhorfandans til að naga af sér útlim.

Kaninn sem kann ekki að laga te

Svo veldur það auðvitað gífurlegum usla á meðal íbúa bresku sveitarinnar að Ameríkaninn kann alls ekki að hella upp á te. Það vita flestir sem það hafa gert að þar að baki er ekki mikil kúnst, það þarf ekki mikið annað en að leyfa pokanum að sósast aðeins í heitu vatninu og auðvitað er hægt að bæta út í dassi af sykri eða hunangi fyrir þá sem það kjósa, svo þarf bara að drekka. Einhvern veginn virkaði ósennilegt að barnfóstran gæti ómögulega gert það rétt og undarleg voru áhrifin sem það hafði á heimilslífið að hún skyldi reyna sífellt að byrla þeim þetta ódrekkanlega te. Bretarnir þurfa sitt te, kona góð.

Munu þær eða munu þær ekki?

En á heimilinu, þrátt fyrir fyrir foreldraleysi barnanna, ríkir kærleikur sem börnin eru umvafin alla daga og Daníella er boðin velkomin af þeim sem eru á lífi að minnsta kosti. Þangað kemur nefnilega daglega og starfar með Daníellu fólk sem er álíka annt um börnin og tespopann sinn. Kokkurinn er ungur, sjarmerandi og fyndinn, ráðskonan er glæsileg, ákveðin en elskuleg. Svo er það garðyrkjustúlkan sem er ung, kjaftfor, svöl og nokkuð ruddaleg við barnapíuna. Það sem kemur reyndar á óvart varðandi hana, og er kannski óþægileg áminning um hvernig kvenhlutverkum eru oft þröngar skorður settar, að garðyrkjustúlkan er líkt og sú ameríska stelpuleg, ung og sæt. Samt virðist henni ekki vera ætlað að vera stillt upp sem beinni ógn við þá amerísku, hún hefur ekki í hyggju að næla sér í sama mann og barnapían, hennar fegurð á ekki að setja vist hennar í sveitinni úr skorðum.

Enda kemur í ljós að barnapían okkar hefur ekki sama áhuga á karlkyns vonbiðlum sínum og fyrrverandi kærustum og þeir höfðu á henni, en hana dauðlangar í þessa föngulegu orðljótu konu með garðklippurnar. Og við sem fylgjumst með fáum lengi að engjast yfir því að það ætlar aldrei að verða ljóst hvort þær nái saman og það er ágætlega vel útfært limbó þar sem garðyrkukonan girnist barnapíuna en er henni fráhverf þess á milli. Þær hafa báðar sinn tilfinningalega farangur og eru ofsóttar af draugum sinnar fortíðar sem gerir þeim illkleift að treysta hvor annarri og leyfa sér að verða ástfangnar.

Hefði mátt velja einfaldari leið

Persónusköpunin er án vafa sterkasta hlið þáttanna. Ráðskonan, garðyrkjustúlkan og kokkurinn eru öll áhugaverðir karakterar með merkilega sögu sem halda manni við efnið. Það er erfitt að gera upp við sig hvort börnin eru illræmd og vitorðsmenn drauganna sem fara um húsið á nóttunni eða hvort þau meina eins vel og þau vilja láta. Krakkarnir eru nokkuð sannfærandi í hlutverkum sínum og það er ljóst að þau vita meira um afdrif fyrri barnapíunnar og draugaganginn í húsinu en aðrir sem þar dvelja. Í fyrstu þáttunum eru senurnar oft á tíðum nokkuð óhuggulegar og fá hárin til að rísa.

Ef amma bara héldi áfram að vera í heimsókn eftir sinn dag

En það verður ljóst að framleiðendur þáttanna eru ákveðnir í því að reiða sig ekki eingöngu á hryllinginn heldur bjóða upp á almennilega sögu og vel hnýtta en flókna sögufléttu. Nú byggist sagan lauslega á nóvellunni The Turn of The Screw eftir Henry James sem kom út árið 1898. Hvort sem það er af hollustu við bókina eða hver sem ástæðan kann að vera er ljóst að handritshöfundurinn fer langt fram úr sér. Það er stundum sagt að það sé ekki hyggilegt að hafa of marga kokka í eldhúsinu og maður fær sterklega á tilfinninguna að hér hafi of margar hugmyndir fengið að blandast í sögusúpuna svo úr varð hreinræktuð djöflasýra. Allur hryllingurinn hverfur í síðustu þáttunum þegar draugarnir birtast ljóslifandi í stofunni sem þrátt fyrir andlát sitt hafa ekki tapað kraftinum, tilfinningahitanum eða röddinni.

Það er nefnilega sem fyrr segir þetta með draugana. Ef þeir væru ekki svona dularfullir og ósýnilegir að kasta hlutum úr skápum og láta ískra í hurðum heldur sýndu sóma sinn í að tylla sér í stofuna hjá þeim sem lifa, ef þeir hringdu bara bjöllunni á undan sér og kíktu í heimsókn eins og lifendur, þá stæði manni líklega ekki sami stuggur af þeim. Ef að amma sem lést fyrir ári síðan hefði aldrei farið langt heldur sæti enn í stofunni að prjóna eins og hún gerði þá væri það kannski ekkert of óhuggulegt heldur frekar bara kósý. Þannig verða draugarnir í þáttunum allt of huggulegir þegar líður á söguna.

Loksins þegir óboðni brúðkaupsgesturinn

Loks er óhugnaðurinn útskýrður með kvalarfullt langdreginni sögu sem hefði mátt taka nokkrar mínútur í samtali en fær þess í stað pláss í heilu þáttunum með sífelldum endurtekningum og leiðindum úr fortíðinni, sögu af fólki sem tengist barnfóstrunni sem við fylgdum alla þessa leið mjög takmarkað. Í lokin er þó bundin slaufa á allt þó vissulega skilji endirinn mann eftir með nokkrar spurningar og göt sem langsótta plottið stoppar alls ekki fyllilega upp í. Kannski er því helst að fagna að aldraða konan setur loksins punkt við söguna sína svo brúðhjónin og gestir geta loksins lagt sig. Grunlaus um hvernig sagan kom brúðkaupsgestum við þó við áhorfendur fáum ákveðna vísbendingu undir lokin.

Þegar upp er staðið eru þættirnir alveg sæmileg skemmtun, allavega framan af. Fyrir alla þá sem kunna að meta þokkalegar ástarsögur, breska sveitasælu, búningadrama og léttan draugagang þá er engin ástæða til að setja Haunting of Bly Manor neðarlega á listann. Það má hins vegar búa sig undir að þurfa að rifja upp nokkrar þolinmæðisæfingar við áhorf og að finna fyrir mikilli aukinni löngun í te við áhorfið. Best í raun að byrgja sig upp af tei.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Í hrollvekjandi húsi Crain-fjölskyldunnar

Sjónvarp

Ekki fyrir myrkfælna