Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kaupfélag Skagfirðinga gefur 40 þúsund máltíðir

Mynd með færslu
 Mynd: Kaupfélag Skagfirðinga - KS.is
Kaupfélag Skagfirðinga og fyrirtæki þess sem framleiða matvöru af ýmsu tagi ætla að gefa sem nemur 40 þúsund máltíðum. Þær eru ætlaðar fólki sem á í erfiðleikum vegna kórónuveirukreppunnar og verða afhentar fram að jólum.

 „Við höfum leitað eftir samstarfi við þær hjálparstofnanir sem liðsinna fólki í neyð,“ segir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri í samtali við fréttastofu. Þær hafi reynsluna í hvernig eigi að útbúa pakka af þessu tagi og séu þegar teknar að undirbúa móttöku á vörunum.

Þórólfur segir að máltíðunum, kjöti, sjávarfangi og mjólkurafurðum, verði skipt bróðurlega milli allra landshluta. Þórólfur kveðst jafnframt trúa því að íslensk matvælaframleiðslufyrirtæki taki ábyrgð í þessum mikla vanda sem við blasir vegna faraldursins.

Í Skagafirði sé mikil matvælaframleiðsla og því hafi kaupfélaginu runnið blóðið til skyldunnar. Hann hvetur til samstöðu og samvinnu á erfiðum tímum og ítrekar að mikilvægt sé að fara saman í gegnum þetta ástand.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV