Faðir Sunnu er rithöfundur og móðir hennar hefur líka fengist við ritstörf en Sunna fékk fyrst hugmynd að því að skrifa sjálf skáldsögu þegar hún las Eyland eftir samstarfskonu sína Sigríði Hagalín Björnsdóttur á fréttastofunni. Það var árið 2018 þegar hún bjó hún á Svalbarðseyri og hafði gert upp gamlan fiskvinnsluskúr með kamínu. Þar hlustaði hún tvisvar á Eyland á hljóðbók og varð svo impóneruð að hún byrjaði að skrifa sína eigin skáldsögu þegar skammdegið reið yfir. Bókina kallaði hún Taugar og lýsir henni sem sögu um geðveiki, einangrun og óheilbrigð tengsl okkar við ræturnar.
Ráðlagt að horfa á Outbreak
Annar áhrifavaldur frá samstarfskonu Sunnu í Efstaleiti var þáttur af Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur. „Sem fjallaði um ógeðslegan riðusmitsjúkdóm sem breiddist út á Nýju-Gíneu, kúrú eða hláturdauðinn. Sem var afbrigði af mannariðu sem þurrkaði út heilan ættbálk því þau voru svo mikið að éta hvort annað.“ Fyrir var Sunna svo ágætlega fróð um riðusjúkdóma í sauðfé á Íslandi en rannsóknir hér á landi eru framarlega á heimsvísu. „Þarna fékk ég hugmynd að hrollvekju um smitsjúkdómafaraldur sem myndi brjótast út á Íslandi sem væri riða í mönnum. Sem er raunverulegt dæmi en ég ýkti bara smitleiðirnar. Ég hringdi í Harald Briem fyrrverandi sóttvarnalækni og hann ráðlagði mér að horfa á bíómyndina Outbreak með Dustin Hoffman og lesa viðbragðsáætlun Almannavarna við heimsfaraldri inflúensu.“