Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hampar ljósmæðrum í óvenjulegri ljóðabók

Mynd: RÚV / RÚV

Hampar ljósmæðrum í óvenjulegri ljóðabók

31.10.2020 - 09:00

Höfundar

Kristín Svava Tómasdóttir vildi hampa hetjum sem lögðu á fjallvegi að nóttu sem degi, í hvaða veðri sem er til að hjálpa konum að fæða. Útkoman er skrýtin og skemmtileg ljóðabók.

Bókin heitir Hetjusögur og er ort upp úr ritinu Íslenzkar ljósmæður I-III, sem Séra Sveinn Víkingur gaf út upp úr 1960 á Akureyri og inniheldur æviþætti ljósmæðra. Kristín Svava segir að ritið sé magnað, blanda af þjóðlegum fróðleik og æviþáttum. 

„Allur textinn í bókinni er í rauninni kominn úr þessu verki. En svo er ég búin að klippa þetta allt í drasl og klippa sundur stök orð og setningar, tína innan úr setningum líka og endurraða þessu öllu saman. Það er aðferðin.“

Hún segir að markmiðið hafi verið tvíþætt. „Það er annars vegar að hampa þessum hetjum í bókunum sem eru svo magnaðar, þessar ljósmæður  sem voru að leggja á fjallvegi að nóttu sem degi í hvaða veðri sem er til að hjálpa konum að fæða. En svo líka, og það er kannski kveikjan að því að mér datt í hug að fara að búa til einhverja bók upp úr þessu sjálf, að skoða sögurnar sjálfar. Þetta eru bæði hetjurnar og svo eru sögurnar. Ég skoða hvernig þær eru sagðar og nota stef í ljóðunum til að skoða hvaða stef eru í frásögnunum af þeim.“

Þetta eru miklar hrakningasögur, sem er rótgróin og vinsæl bókmenntagrein á Íslandi en býsna karllæg, segir Kristín Svava. „Það er svo ótrúlega skemmtilegt að vera með allar þessar sögur af konum sem eru í hrakningum á heiðavegum og það sem er svo fallegt líka við að þetta séu ljósmæður er að þetta verður oft dýpri hetjumynd,“ segir hún. „Hún verður blæbrigðarík af því að það er þetta sambland af mýkt og hörku. Þær eru svo mikil hörkutól, þurfa að standa sig við ótrúlega erfiðar aðstæður en svo eru þær líka í þessu umönnunar- og hlýjuhlutverki. Það eru mannslíf í húfi, því konur dóu unnvörpum af barnsförum á þeim tíma.“

 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mjög læsileg og hæfilega fræðileg bók

Bókmenntir

Kristín Svava verðlaunuð fyrir Stund klámsins