Á þeim tíma sem myndin hefst hafði Nixon enn ekki gengist við því að hafa gert neitt rangt og aldrei beðið bandarísku þjóðina afsökunar. Því kom á óvart að hann skyldi samþykkja að mæta í sjónvarpsviðtal hjá David Frost. „Hann var spjallþáttastjórnandi af léttara taginu, Hemmi Gunn eða Gísli Marteinn í augum fólks en ekki þekktur fyrir djúp og þung stjórnmálaviðtöl,“ segir Karl. „Það má segja að allir hans ferill hafi hangið á þessu eina viðtali.“
Og það var ekkert minna í húfi fyrir Nixon. „Hann hafði í raun bara þetta eina skot í byssunni til að ávarpa bandarísku þjóðina um það sem hafði gengið á,“ segir hann. „Það sem hangir á spýtunni í þessari mynd er að svo mikið, bæði fyrir Frost og Nixon. Það gerir myndina spennandi en hún er líka frábærlega skemmtileg.“
Karl hvetur áhorfendur til að taka sérstaklega eftir einu atriði. „Hún er stundum kölluð ostborgarasenan og gerist laust eftir miðbik myndar,“ segir Karl. „Nixon hringir í Frost upp á hótelherbergið og samtalið er magnað og kemst inn að innsta kjarna beggja persóna,“ segir hann.
Myndin eigi sérstaklega vel við þessa dagana í forsetatíð Donalds Trumps. „Það má segja að Nixon sé næstversti forseti Bandaríkjanna síðustu hundrað árin, en sá versti er sá sem situr núna,“ segir hann. „Myndin fjallar um uppgjör forseta við bandarísku þjóðina þar sem hann reynir að setja plástur á það sár sem hann skildi eftir. Hver veit nema sams konar uppgjör eigi sér stað innan fárra ára varðandi Trump-tímann?“
Kvikmyndin Frost Nixon er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 22.50.