Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forseti Fílabeinsstrandarinnar hvetur til rósemi

31.10.2020 - 13:38
epa08788112 President of Ivory Coast Alassane Ouattara speaks to the media at a polling station during the first round of the presidential election, in Abidjan, Ivory Coast, 31 October 2020. Polls opened on 31 October for Ivory Coast's presidential elections, in which the incumbent President Alassane Ouattara is expected to secure a third term.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alassane Ouattara forseti Fílabeinsstrandarinnar kallar eftir því að andstæðingar hans láti af herferð sinni við að hvetja íbúa landsins til borgaralegrar óhlýðni.

Kveikjan að andófinu er sú ákvörðun Ouattara að gefa kost á sér til embættis forseta landsins í þriðja sinn. Hann var fyrst kjörinn árið 2010. Samkvæmt stjórnarskrá Fílabeinsstrandarinnar sem sett var árið 2016 má forseti aðeins sitja tvö fimm ára kjörtímabil í senn.

Forsetinn lýsti yfir í mars að hann hygðist ekki gefa kost á sér að nýju en eftir að frambjóðendur flokks hann heltust úr lestinni hver af öðrum snerist honum hugur.

Stjórnlagaráð landsins tilkynnti að fjórir mættu gefa kost á sér til embættis forseta, þar á meðal Ouattara. Rökin fyrir því að hann gæti gefið kost á sér eru þau að hann var fyrst kjörinn áður en nýja stjórnarskráin gekk í gildi.

Gengið verður að kjörborðinu í dag en hið minnsta þrjátíu hafa látist í átökum undanfarna mánuði. Forystufólk stjórnarandstöðunnar hefur hvatt til sniðgöngu kosninganna og almennrar borgaralegrar óhlýðni til að koma í veg fyrir endurkjör Ouattaras.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV