Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Byssur og skotfæri aftur í hillur Walmart

31.10.2020 - 04:53
epa04900755 People leave a Walmart super store in Garland, Texas, USA, 27 August 2015. Walmart announced it will no longer sell high-powered military-style assault rifles at its stores in the United States. The retailer is the largest seller of guns and ammunition in the US  EPA/LARRY W. SMITH
 Mynd: epa
Byrjað var að raða byssum og skotfærum aftur í hillur verslana bandaríska smásölurisans Walmart í gær, aðeins degi eftir að þær voru fjarlægðar úr hillunum af ótta við uppþot, rán og rupl.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að það hafi gefið verslunarstjórum fyrirmæli um að færa byssur og skotfæri úr hillum yfir í örugga geymslu utan seilingar almennra viðskiptavina, til að tryggja að fyllsta öryggis væri gætt. Nokkrar af verslunum keðjunnar hefðu orðið fyrir skemmdum fyrr í vikunni, á meðan á mótmælum stóð á götum úti.

Minni og staðbundnari óróleiki en óttast var

Farið var ránshendi um minnst eina Walmart-verslun í Fíladelfíu, þegar óeirðir brutust út þar í borg eftir að lögregla skaut blökkumanninn Walter Wallace jr. til bana.

Óttast var að órói og óeirðir breiddust frekar út, ekki aðeins vegna drápsins á Wallace, heldur einnig vegna vaxandi spennu í tengslum við forsetakosningarnar á þriðjudaginn.

Þar sem uppákomur vikunnar hafa verið bundnar við einstaka staði, segir í tilkynningu Walmart, var tekin ákvörðun um að setja vopnin aftur á sinn stað. 

Hættu sölu á skammbyssum og hríðskotarifflum eftir árásir

Walmart hætti sölu á skammbyssum og skotfærum í hríðskotariffla og fleiri öflug skotvopn í september á síðasta ári, eftir að minnst 24 manneskjur voru myrtar í tveimur skotárásum í og við verslanir keðjunnar. Samtímis var lagt blátt bann við því að viðskiptavinir bæru skotvopn í Walmart-verslunum. Fjórum árum fyrr, 2015, hætti Walmart sölu á hríðskotarifflum eins og þeim, sem notaðir hafa verið í mörgum fjöldamorðum vestra síðustu ár.