Boris Johnson kynnir mánaðarlangt útgöngubann

31.10.2020 - 16:35
epa07855434 British Prime Minister Boris Johnson meets with Emir of Qatar, Sheikh Tamim bin Hamad Al Thani (not seen) at 10 Downing Street in Central London, Britain, 20 September 2019.  EPA-EFE/WILL OLIVER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA Pool
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnir seinna í dag mánaðarlangt útgöngubann á Englandi sem tekur gildi á fimmtudag. Þetta er í annað sinn síðan farsóttin barst þangað til lands sem ríkisstjórnin grípur til svo harðra aðgerða. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Öllum verslunum öðrum en þeim sem selja nauðsynjavörur verður lokað og öll þjónusta sem ekki telst nauðsynleg verður lögð niður. Ólíkt þeim takmörkunum sem voru í gildi í útgöngubanninu í Englandi í vor verða skólar og háskólar áfram opnir. Einnig er búist við ferðatakmörkunum af einhverju tagi.

Tilkynnt hefur verið um rétt tæp 22 þúsund ný kórónuveirusmit í Bretlandi síðasta sólarhringinn og 326 dauðsföll af völdum COVID-19. 

Breska ríkisútvarpið greindi frá því fyrr í dag að það hefði undir höndum skjöl sem gæfu til kynna að fjöldi látinna í yfirstandandi bylgju kynni að verða meiri en í þeirri fyrstu, yrði ekki gripið til frekari ráðstafana til að takmarka útbreiðsluna. Allt að fjögur þúsund manns gætu látið lífið á dag, og að minnsta kosti tvö þúsund. Á hápunkti faraldursins í vor fóru dauðsföll í Bretlandi af völdum COVID-19 yfir eitt þúsund á dag. Fréttastofa fjallaði um þetta fyrr í dag.