Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bið eftir atvinnuleysisbótum sex vikur í stað tíu

31.10.2020 - 08:17
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fólk sem sækir um atvinnuleysisbætur þarf að bíða í um það bil sex vikur eftir fyrstu greiðslunni frá Vinnumálastofnun. Biðin hefur styst verulega frá því í vor þegar hún var gjarnan lengri en tíu vikur.

Settu sér markmið í hverri viku

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við fréttastofu að sumarið hafi farið í að vinna niður skafl sem hafði myndast í vor þegar umsóknir streymdu inn. Hún segir að álagið á kerfið hafi verið sérstaklega mikið þegar fyrst var boðið upp á hlutabætur. „Þetta var bara verkefnið í sumar, að greiða út bætur. Við settum okkur skýr markmið í hverri viku og okkur tókst að stytta biðina. Við fengum aukamannskap og töluvert af fólki í gegnum sumarátak námsmanna,“ segir hún.

Þyrftu meiri mannskap og betra kerfi til að stytta biðina meira

Unnur segir ekki raunhæft að ætla að stytta biðina mikið meira, fjögurra til sex vikna bið hafi verið markmiðið í bili. Til þess að stytta biðina enn frekar þyrfti betra kerfi og meiri mannskap.  Enn berast Vinnumálastofnun 2-3.000 umsóknir á mánuði og Unnur segir að það sé tímafrekt að meta hverja umsókn fyrir sig.

Aðspurð hvort hún telji að margir lendi í vandræðum vegna biðinnar segist Unnur efast um það: „Flestir hafa uppsagnarfrest í þrjá mánuði, og að minnsta kosti í einn. Þeir geta sótt um bætur um leið og þeir sjá fram á að þurfa þær,“ segir hún.