Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Allir eldri en fimm ára með grímur í verslunum

31.10.2020 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Öllum eldri en fimm ára er skylt að bera grímu í verslunum, hvort sem hægt er að tryggja tveggja metra regluna eða ekki. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í nótt. Heimilt er að sekta þá sem brjóta reglur um grímunotkun. Víðir Reynisson vonast til þess að ekki þurfi að beita viðurlögum við brotum á reglunum.

 

Sóttvarnareglurnar sem tóku gildi í nótt eru þær ströngustu sem settar hafa verið á lýðveldistímanum. Reglurnar ná til allra nema barna fæddra árið 2015 eða síðar, sex ára og eldri.

Bannað er að fleiri en tíu komi saman, nema í lyfja- og matvöruverslunum, almenningsamgöngum og jarðarförum. Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustöðvar, snyrtistofur, krár og skemmtistaðir eru lokuð, íþróttir og sviðslistir bannaðar, og veitingastöðum þarf að loka klukkan níu á kvöldin. Starfsmenn teljast líka til tíu manna hámarksfjöldans, svo ekki er sennilegt að mörg veitingahús sjái sér fært að taka á móti matargestum.

Í reglugerðinni kemur einnig fram að andlitsgrímur skuli nota í almenningssamgöngum, verslunum og annarri þjónustu.

„Hugsunin er líka í þessu að vera viðbúin að beita grímu þar sem hugsanlega þær aðstæður geta komið upp að þú getir ekki haldið tveggja metra reglu,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. „En í verslunum er grímuskylda.“ 

Þurfa þá allir fimm ára og eldri að vera með grímu?

„Já, samkvæmt reglugerðinni er það þannig,“ segir Víðir. „En ég held að allir átti sig á erfiðleikunum við að vera með ung börn með grímur. Og þar af leiðandi er það spurning hvort þörf sé á því að taka börn með í verslanir. En þeir sem geta ekki annað, reyna hvað þeir geta.“

Allt að 500.000 króna sekt

Í fyrirmælum ríkissaksóknara frá 7. september um brot gegn sóttvarnarreglum sem þá voru í gildi kemur fram að brot gegn reglum um fjöldatakmörkun og grímunotkun geti varðað sektum. Sekt einstaklings sem sækir samkomu getur numið 50.000 krónum, en sekt forsvarsmanns samkomunnar 250 til 500.000 krónum. Brot á reglum um notkun andlitsgrímu getur varðað sekt upp á tíu til hundrað þúsund krónum fyrir einstakling, en sekt forsvarsmanns þeirrar starfsemi sem um ræðir 100 til 500.000 krónum.

Víðir segir þessi viðurlög enn í gildi.

„Þau eru enn í gildi og gilda um þá þætti sem snúa að gildandi reglugerðum.“

Verður fólk þá sektað fyrir að mæta grímulaust í matvöruverslanir ef þar er troðningur?

„Það er alveg heimild fyrir því að beita því en ég held að við ætlum öll að fara í gegnum þetta verkefni án þess að standa í slíku.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ábyrgðin á grímuskyldu í verslunum liggi bæði hjá kaupmönnum og viðskiptavinum: „Einstaklingarnir eru ábyrgir fyrir að fara eftir þessu og staðirnir eru ábyrgir fyrir því að þessu sé framfylgt.“