Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vitnisburður um það hversu alvarleg staðan er orðin

Mynd: RÚV / RÚV
Fleiri fyrirtæki geta sótt um styrki til að halda sér á floti í gegnum faraldurinn, samkvæmt breyttum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra segir þær til marks um hversu erfið staðan sé orðin, fyrirtækin glími við hrikalegar aðstæður. Lagt er til að fleiri geti sótt um svokallaða tekjufallsstyrki til að bæta upp tap vegna minni tekna, og veita á viðspyrnustyrki í framhaldinu og fram á næsta ár.

Aðgerðirnar verða kynntar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eftir helgi. Þingið hefur til meðferðar frumvarp um tekjufallsstyrki, sem eiga að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi vegna faraldursins frá 1. apríl til 31. október.

Frumvarpinu verður breytt. Áður gátu aðeins fyrirtæki með þrjá starfsmenn eða færri sækja um slíka styrki. Nú er lagt er til að tekjufallsstyrkir verði veittir fyrir allt að fimm stöðugildi,  og að rekstraraðilar sem verða fyrir 40-70 prósent tekjufalli geti átt rétt á styrk fyrir hvert stöðugildi. 

„Þetta er augljóslega að fara að nýtast öllum þeim sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. „Við erum að lækka viðmiðin, lækka þröskuldinn fyrir úrræðin, við erum að stækka hóp rekstraraðila sem eiga möguleika. Og þetta er á sinn hátt vitnisburður um það hversu alvarleg staðan er orðin, að útbreiðsla veirunnar sé að valda þetta mikilli röskun á rekstri fyrirtækjanna í landinu.“

Hrikalegar aðstæður

Viðspyrnustyrkirnir eiga að koma í framhaldi af tekjufallsstyrkjum og gilda fram á næsta ár. Þeir eiga að tryggja að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir. 

„Við verðum einfaldlega að vera bjartsýn og hafa trú á því að það rætist úr einn góðan veðurdag,“ segir Bjarni. „Í millitíðinni að nota það sem við höfum. Við höfum sterka stöðu, við höfum bolmagn til að taka mjög myndarlega á málum. Við erum að teygja okkur til ólíkra hópa, við leggjum mjög mikið virði í að skapa viðspyrnu fyrir rekstaraðila sem eru að glíma við þessar hrikalegu aðstæður en þurfa að vera til staðar fyrir viðspyrnuna þegar aðstæður skapast.“

Þá hefur félagsmálaráðherra hafið undirbúning að framlengingu hlutabótaleiðarinnar og jafnframt hefur Alþingi til meðferðar frumvarp um framhald lokunarstyrkja.