Veittist að átta ára barni á skólalóð og ók því heim

30.10.2020 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir tveimur konum sem dæmdar voru í skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast að átta ára barni á skólalóð, draga það inn í bíl og keyra heim til móður sinnar. Önnur konan var sakfelld fyrir ólögmæta nauðung og brot gegn barnaverndarlögum og hin var sakfelld fyrir að taka þátt í brotunum.

Til átaka hafði komið á fótboltavelli skólalóðarinnar en konan sem ákvað að skerast í leikinn segir dóttur sína hafa verið lagða í einelti af stráknum sem hún braut á. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að konan hafi veist að honum og öskrað á hann, rifið í handlegg hans, dregið hann á eftir sér og neytt hann til þess að fara með sér inn í bíl og vera þar á meðan hin konan ók bílnum að heimili hans.

Framburður tveggja eldri stráka, sem urðu vitni að atvikinu og hringdu á lögreglu, reyndist mikilvægur í málinu. Þeir lýstu því báðir að konan hafi verið mjög reið, gripið í brotaþola og dregið hann í átt að bílastæðinu.

Konan sem átti frumkvæði að brotinu var dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða drengnum 600 þúsund krónur í skaðabætur. Hin konan fékk 30 daga skilorðsbundið fangelsi og þarf að greiða honum 100 þúsund krónur.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV